Tónlist

Half the Perfect World - þrjár stjörnur

Madeleine Peyroux er ung og rísandi djass-stjarna Bretarnir halda ekki vatni yfir þessa daganna. Ljúf og hugljúf plata fyrir þá sem laðast að söngkonum á borð við Noruh Jones.
Madeleine Peyroux er ung og rísandi djass-stjarna Bretarnir halda ekki vatni yfir þessa daganna. Ljúf og hugljúf plata fyrir þá sem laðast að söngkonum á borð við Noruh Jones.

Ef Norah Jones væri ekki sjálf að gefa út plötu þessa dagana myndi ég hiklaust mæla með þessari dömu hér með erfiða nafnið, Madeleine Peyroux, til þess að fylla upp í skarðið.

Erfitt að segja hvort þetta sé létt popp undir djassáhrifum, eða djass undir léttum poppáhrifum. Tilfinningin er a.m.k. sérstaklega afslöppuð og útsetningar berstrípaðar. Einhver reyndi að ljúga því að mér að Madeleine syngi eins og Billie Holiday, en það er fjarri lagi.

Hún er miklu keimlíkari nútíma djass söngkonum, sem syngja letilega og lýtalaust. Eins og ég get ímyndað mér að freðin Idol stjarna myndi hljóma í kvöldmessu á sunnudagskvöldi. Eitthvað sem aldrei væri hægt að segja um Lady Day, en það var akkúrat meingölluð rödd hennar sem færði henni sjarmann ódauðlega.

Madeleine syngur svo sannarlega fallega, sérstaklega í jólalega laginu River (sem fær að „láni” stef úr Jingle Bells), þar sem hún fær skosku vinkonu sína K.T. Tunstall til halds og trausts. Ég myndi þó aldrei segja að hún sé með auðþekkta eða hvað þá eftirminnilega rödd. Það er svolítið kántrí keimur í túlkun hennar, sem fer vel við þetta gítardrifna djass popp.

Flest lögin á plötunni eru tökulög, og Madeleine vandar valið. Hún fer ágætlega með Tom Waits lagið Looking for the Heart of Saturday Night sem og Serge Gainsbourg lagið La Javanaise. Útgáfa hennar af Charlie Chaplin laginu Smile fannst mér þó ekkert varið í. Kannski þess vegna sem það er síðast. Hennar eigin lagasmíðar falla svo vel inn í heildina.

Þetta er afskaplega ljúf plata sem ég get ekki ímyndað mér að geti mögulega farið í taugarnar á nokkurri lifandi manneskju, nema kannski hörðustu Waits aðdáendum sem vilja helst ekki heyra neinn annan flytja hans lög.

Birgir Örn Steinarsson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×