Handbolti

Handboltinn stendur höllum fæti í Hafnarfirði

Staðan í handboltanum í Hafnarfirði er ekki glæsileg ef marka má úttekt íþróttadeildar Stöðvar 2 í kvöld
Staðan í handboltanum í Hafnarfirði er ekki glæsileg ef marka má úttekt íþróttadeildar Stöðvar 2 í kvöld Mynd/Stefán Karlsson

Handboltinn í Hafnarfirði stendur afar höllum fæti og skulda handknattleiksfélög Hauka og FH þar í bæ samtals 113 milljónir króna. Handknattleiksdeildir félaganna eru komnar í þrot og hafa leitað aðstoðar bæjaryfirvalda. Hörður Magnússon greindi frá þessu í íþróttafréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Samkvæmd heimildum íþróttadeildarinnar skuldar handknattleiksdeild Hauka 74 milljónir króna og viðurkenndi Sindri Karlsson, formaður aðalstjórnar félagsins, að heildarskuldir félagsins væru 250 milljónir króna en eignir félagsins væru andvirði á bilinu 300-400 milljónir króna.

Ágúst vildi ekki taka handknattleiksdeildina fram yfir aðrar í þessu sambandi en sagði vandann félagsins alls. Hann sagði stöðuna þó alvarlega og benti á að langstærsti hluti skuldanna væru áfallnir vextir. Helmingur skuldarinnar er samkvæmt heimildum íþróttadeildarinnar vegna uppbyggingar Ásvalla, en lausaskuldir á bilinu 120-130 milljónir króna.

Ekki er staða handknattleiksdeildar FH glæsilegri en þar hljóða skuldirnar upp á 39 milljónir króna. Þetta staðfesti Örn Magnússon við íþróttadeildina í dag. Örn sagði þáttöku liðsins í Evrópukeppnum á síðustu árum vera aðalástæðu skuldastöðu deildarinnar.

Lúðvík Geirsson bæjarstjóri Hafnarfjarðar segir að endurskoðendur séu búnir að fara yfir stöðu félaganna og segir máli vera í skoðun hjá bæjaryfirvöldum. Hann sagði skuldastöðuna fyrst og fremst liggja hjá meistaraflokkum félaganna enda sé þáttaka barna í íþróttum niðurgreidd hjá bænum.

Knattspyrnudeild FH stendur hinsvegar mjög vel samkvæmt heimildum íþróttadeildarinnar, en síðar í vetur hefjast miklar framkvæmdir á íþróttasvæði félagsins í Kaplakrika. Þar verður stúkan stækkuð og til stendur að völlurinn muni rúma yfir 4000 áhorfendur í sæti. Auk þessa er fyrirhugað að byggja frjálsíþróttahús. Framkvæmdir þessar munu kosta einn milljarð króna og mun Hafnafjarðarbær greiða 80% af þeirri upphæð en FH afganginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×