Handbolti

Þróttarar mættu ekki í lyfjapróf

Þrír leikmenn handknattleiksliðs Þróttar í Vogum skrópuðu í lyfjapróf eftir bikarleik gegn Stjörnunni í gær og eiga tveggja ára keppnisbann yfir höfði sér. Þorsteinn Gunnarsson greindi frá þessu í íþróttafréttum á Stöð 2 í kvöld.



Athygli vakti í leik Þróttar og Stjörnunnar í Garðabæ í gærkvöldi að þrír leikmenn Þróttar hurfu úr húsi í miðjum leik. Áslaug Sigurjónsdóttir, formaður lyfjaeftirlits ÍSÍ, staðfesti við íþróttadeildina að aðeins einn af fjórum leikmönnum Þróttar sem boðaðir voru í lyfjapróf eftir leikinn, hefði mætt og þrír hefðu því skrópað.

Að sögn Áslaugar er farið með skróp í lyfjapróf eins og um lyfjamál sé að ræða og eiga þremenningarnir því tveggja ára keppnisbann yfir höfði sér. Hún segir að málið sé grafalvarlegt fyrir þessa þrjá leikmenn en lyfjaeftirlitið vinnur að rannsókn málsins.

Lið Þróttar í Vogum saman stendur af köppum sem eru þekktari fyrir að iðka aðrar íþróttir en handbolta enda tekur Þróttur ekki þátt í Íslandsmótinu í handbolta heldur eingöngu bikarkeppni HSÍ.

Gunnar Helgason, sem er í forsvari fyrir Þrótt Vogum, sagðist aðeins vita til þess að einn leikmaður hefði yfirgefið íþróttahúsið áður en leik lauk. Formaður Lyfjaeftilitsins segir að eftirlitið geti valið hvaða íþróttamann eða konu sem er í lyfjapróf. Þess má geta að Þróttur tapaði fyrir Stjörnunni með 32ja marka mun, 44 mörkum gegn 12.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×