Viðskipti innlent

Fitch staðfestir lánshæfismat ríkissjóðs

Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings greindi frá því í dag að það hefði staðfest lánshæfismat ríkissjóðs Íslands. Lánshæfiseinkunn fyrir erlendar langtímaskuldbindingar er AA- (AA mínus) og fyrir innlendar skuldbindingar AAA og horfur fyrir matið eru neikvæðar.

Í tilkynningu frá Fitch Ratings segir meðal annars að staðfesting á núgildandi lánshæfismati ríkissjóðs með neikvæðum horfum endurspegli þá staðreynd að íslenska hagkerfið er enn mjög skuldsett og eigi eftir að takast á við nokkur af meginatriðunum sem dregin voru fram við síðasta mat fyrirtækisins á stöðu ríkissjóðs í febrúar.

Paul Rawkins, sérfræðingur hjá matsfyrirtækin í London segir: „Fitch lítur jákvæðum augum á undangengna þróun í fjármálakerfinu sem miðað hefur að því að auka traust og trúverðugleika, en Fitch hefur áfram áhyggjur af þjóðhagslegu ójafnvægi og hvernig aðlögunin gæti orðið á endanum".

Þá er bent á að íslenska hagkerfið sé í miðju þenslutímabili sem sé drifið áfram á framboðshliðinni með miklum fjárfestingum í ál- og orkuiðnaði. Til lengri tíma litið er búist við að stóriðjuframkvæmdirnar muni breikka útflutningsgrunn þjóðarinnar, auka gjaldeyristekjur og gera þar með erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins sjálfbærari.

Til skamms tíma hafi stóriðjuframkvæmdirnar reynt töluvert á þjóðhagslegan stöðugleika, og breytingar á húsnæðismarkaði aukið enn á vandann ásamt hraðri útrás íslensku bankanna og fyrirtækja, sem hefur verið fjármögnuð með mikilli lántöku á erlendum mörkuðum til tiltölulega skamms tíma.

Þá segir ennfremur að bankarnir hafi litið á lánshæfismatið í febrúar þegar horfum fyrir ríkissjóð var breytt úr stöðugum í neikvæðar sem viðvörunarmerki. Þeir hafi því endurskoðað útrásaráform sín og tryggt erlenda endurfjármögnun sína til lengri tíma en mörg lán þeirra falla á gjalddaga á næsta ári.

Fitch segir ennfremur að Ísland þurfi að sýna fram á það geti tekist á við hagsveiflur þegar skuldir aukast enn frekar, eins og til dæmis Nýja Sjáland hefur gert en það er með álíka lánshæfismat.

Lánshæfismat Fitch





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×