Innlent

Afhentu utanríkisráðuneytinu mótmæli vegna hvalveiða

Sendiherrar Bretlands, Þýskalands og Svíþjóðar og fulltrúar úr sendiráðum Frakklands, Finnlands, Bandaríkjanna og sendiráðsritari Ástralíu í Danmörku afhentu utanríkisráðuneytinu í morgun mótmæli 25 þjóða og framkvæmdanefndar Evrópusambandsins við hvalveiðum Íslendinga í atvinnuskyni.

Það var ráðuneytisstjórinn í utanríkisráðuneytinu sem tók við mótmælunum en með þessu vilja þjóðirnar ítreka andstöðu sína við veiðarnar. Mótmælunum verður væntanlega komið til sjávarútvegsráðuneytisins en utanríkisráðuneytið sér um öll formleg samskipti við erlend sendiráð.

Í mótmælabréfi sem afhent var kemur fram að þjóðirnar séu mjög vonsviknar með þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að hefja aftur atvinnuveiðar á hval þrátt fyrir hvalveiðibann.

Þar segir einnig að Íslendingar hafi ákveðið veiðikvóta út frá gögnum sem hvorki hafi verið kynnt, farið yfir né samþykkt af vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins og það grafi undan starfsemi ráðsins.

Eru íslensk stjórnvöld hvött til að endurskoða ákvörðun sína og jafnframt bent á að veiðarnar geti heft vöxt hvalaskoðunar hér á landi.

Þær þjóðir sem skrifa undir mótmælin eru Argentína, Ástralía, Austurríki, Belgía, Brasilía, Chile, Tékkland, Finnland, Frakkland, Þýskaland, Írland, Ísrael, Ítalía, Lúxemborg, Mexíkó, Mónakó, Holland, Nýja-Sjáland, Perú, Portúgal, Slóvakía, Spánn, Svíþjóð, Bretland og Bandaríkin auk framkvæmdastjórnar ESB.

 

 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×