Erlent

Yfir 160 manns látnir og tæplega 500 særðir í Mumbai

Talið er að yfir 160 manns hafi látist og tæplega 500 særst í sjö sprengingum í letsarkerfi Mumbai á Indlandi fyrr í dag. Sprengjusérfræðingum tókst að aftengja áttundu sprengjuna áður en hún sprakk. Enginn hefur lýst ábyrgð á tilræðinu en öruggt er talið að um hryðjuverk sé að ræða.

Björgunarmenn eru á vettvangi og hafa þeir bjargað tugum manna úr lestunum. Forsætisráðherra Indlands kallaði til neyðarfundar og hvetur fólk til að halda stillingu sinni. Lögreglueftirlit hefur verið hert um allt land. Mumbai er fjármálamiðstöð Indlands. Sprengjurnar sprungu á háannatíma og því voru lestirnar troðfullar af fólki en um 6 milljónir ferðast með lestunum daglega. Öllum langferðalestum hefur verið beint frá borginni. Áður hafa verið framin sprengjutilræði í Mumbai og meira en 250 manns létust í sprengingum þar árið 1993.

Ekki er vitað hverjir standa á bak við árásirnar en böndin eru talin berast að aðskilnaðarsinnum frá héraðinu Kasmír. Kasmír hérað hefur verið klofið á milli Indlands og Pakistans frá árinu 1947 en löndin hafa deilt um yfirráð yfir Kasmír æ síðan. Musharraf forseti Pakistans og Aziz forsætisráðherra hafa fordæmt árásirnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×