Erlent

Íranar hætta ekki auðgun úrans

Manouchehr Mottaki, utanríkisráðherra Írans.
Manouchehr Mottaki, utanríkisráðherra Írans. MYND/AP

Stjórnvöld í Íran tilkynntu í morgun að þau væru tilbúin til viðræðna við Bandaríkjamenn um kjarnorkumál en þau myndu samt ekki hætta auðgun úrans líkt og stjórnvöld í Washington gera kröfu um.

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, skýrði frá því í gær að stjórnvöld í Washington væru reiðubúin til viðræðna við Írana um stefnu þeirra í kjarnorkumálum. Það skilyrði yrði þó sett að Íranar hættu þegar auðgun úrans og það yrði að sannreyna áður en viðræður hæfust.

Stjórnmálaskýrendur sögðu þetta mikla stefnubreytingu hjá Bandaríkjamönnum og tilraun þeirra til að taka frumkvæðið í deilunni.

Javier Solana, yfirmaður utanríkismála í Evrópusambandinu, fagnaði í gær yfirlýsingu bandarískra stjórnvalda og það gerðu einnig utanríkisráðherra Bretlands og talsmaður kínveskra stjórnvalda.

Þeir virðast þó hafa glaðst of snemma þar sem ekki má búast við því að ráðamenn frá Bandaríkjunum og Íran setjist að samningaborðinu meðan auðgun úrans verður framhaldið. Manouchehr Mottaki, utanríkisráðherra Írans, sagði í morgun að auðgun úrans yrði ekki hætt. Írönum leyfðust slíkar framkvæmdir og þær væru ekki til umræðu. Stjórnvöld í Teheran væru þó reiðubúin til viðræðna um önnur sameiginleg áhyggjumál ríkjanna. Hann bætti því við að ef Bandaríkjamenn vildu ræða málin yrðu þeir að breyta hegðun sinni.

Utanríkisráðherrar ríkjanna fimm sem hafa neitunarvald í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, Bretland, Bandaríkin, Rússland, Frakkland og Kína, auk Þýskalands, funda um málið í Vín í Austurríki í dag.

En á meðan deilan við Írana er í hnút virðist rofa til í kjarnorkudeilunni við stjórnvöld í Norður-Kóreu. Ráðamenn í Pyongyang hafa boðið helsta samningamanni Bandaríkjastjórnar í kjarnorkudeilu landanna til viðræðna í höfuðborginni. Þar með hafa norðurkóresk stjórnvöld látið í ljós vilja til að hefja á ný viðræður sem ríkin tvö, auk Rússlands, Kína, Suður-Kóreu og Japans, taka þátt í en þær hafa legið niðri frá því síðasta haust.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×