Innlent

Kjósa snemma og það sama og áður

Íbúar á dvalarheimilum aldraðra hafa sennilega fengið vænni skammt af kosningaáróðri en flestir aðrir. Óvíst er þó að það hafi skilað sér sem skyldi því þeir heimilismenn Hrafnistu sem NFS ræddi við í morgun kusu það sama og þeir höfðu gert hingað til.

Vistmenn á Hrafnistu tóku margir hverjir daginn snemma og fóru að kjósa. Það er að segja þeir sem ekki höfðu þegar kosið utan kjörfundar.

Kristinn Jósefsson var að koma heim eftir að hafa kosið þegar NFS hitti á hann laust fyrir hádegi. Hann segist ekki hafa verið í nokkrum vafa um hvað hann ætti að kjósa. "Það lá alveg fyrir," segir Kristinn sem kaus Samfylkinguna. "Ég er jafnaðarmaður, hef alltaf verið."

Annar sem merkti við kunnuglegt tákn er Magnús Jónsson. "Ég kaus íhaldið," sagði hann. Hann hefur kosið Sjálfstæðisflokkinn allt síðan hann var ungur maður í Vestmannaeyjum og breytti ekki út af vananum nú.

Mönnum leist misjafnlega á kosningabaráttuna. Jón Sveinbjörnsson kvartaði undan öllum þeim skoðanakönnunum sem hafa dunið á landsmönnum að undanförnu. "Það á í það minnsta að stoppa þetta hálfum mánuði fyrir kosningar."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×