Innlent

Útlendingum í starfaleit þarf ekki að fjölga

Verkamenn.
Verkamenn. MYND/Vilhelm
Fólki frá Austur-Evrópu sem kemur hingað til lands að leita sér vinnu þarf ekki að fjölga þrátt fyrir að takmarkanir við för þeirra falla niður 1. maí. Þetta er mat félagsmálaráðherra og aðstoðarframkvæmdastjóra Alþýðusambands Íslands.

Takmarkanir sem verið hafa á möguleikum íbúa austur-Evrópuríkjanna í Evrópusambandinu á að finna sér vinnu hér falla niður 1. maí næstkomandi samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar í gær. Þá verður íbúum þessara ríkja heimilt að koma hingað í sex mánuði í atvinnuleit en vinnuveitendur verða að tilkynna það til Vinnumálastofnunar ef þeir ráða fólk frá þessum ríkjum í vinnu.

Takmarkanirnar á för launafólks frá þessum ríkjum voru upphaflega teknar upp víða í Evrópu til að fresta áhrifum stækkunar Evrópusambandsins á vinnumarkað ríkjanna. En er þá ekki ástæða til að ætla að þeim sem hingað koma í atvinnuleit geti fjölgað mjög.

"Það er ekkert gefið í því," segir Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands. "Frá því í september síðast liðnum má segja að þó hér hafi verið sú regla að það bæri að gefa út atvinnuleyfi vegna fólks frá nýju aðildarríkjunum, hafi þetta verið meira og minna sjálfvirkt. Ég veit ekki nein dæmi þess að atvinnuleyfum vegna íbúa frá þessum ríkjum hafi verið hafnað."

Jón Kristjánsson félagsmálaráðherra lýsir svipaðri skoðun. "Ég á svo sem ekki von á því að það hafi úrslitaáhrif hvað það varðar."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×