Innlent

Hringsnerist ef ég reyndi að sætta alla

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra segir að veiðar með flottrollum verði takmarkaðar til að vernda loðnustofninn.
Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra segir að veiðar með flottrollum verði takmarkaðar til að vernda loðnustofninn. MYND/Villi
Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra segir erfitt að ná niðurstöðu um loðnuveiðar, ef sætta eigi þá sem gagnrýna hann fyrir að úthluta of litlum loðnukvóta og þá sem gagnrýna hann fyrir að leyfa veiðar yfir höfuð.

Sjávarútvegsráðherra gefur lítið fyrir gagnrýni Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, varaformanns Frjálslynda flokksins, sem hefur sagt kvótaúthlutun til loðnuveiða vanhugsaða og mikil mistök við núverandi aðstæður. Magnús segir að sjálfur hefði hann varist því að gefa út loðnukvóta vegna þess hversu lítil loðna hefði fundist og finnst að sjávarútvegsráðherra hefði átt að gera það sama.

"Gagnrýnin sem hefur komið fram er af tvennum toga. Annars vegar að það ætti einfaldlega ekki að leyfa neinar loðnuveiðar núna o ghins vegar sú gagnrýni að það hefði verið eðlilegt að gefa út kvóta miklu fyrr og hefja þannig veiðaranr af krafti fyrr," segir Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra. "Ef ég ætlaði að taka tillit til beggja sjónarmiða myndi ég einfaldlega snúast í hringi og aldrei komast að neinni niðurstöðu."

Magnús Þór Hafsteinsson óttast að veiði á loðnu við núverandi aðstæður hafi slæm áhrif á lífríkið enda sé þorskurinn í sögulegu lágmarki, hættur að fjölga sér og líði fyrir viðvarandi næringarskort. Loðna er langmikilvægasta fæða þorsksins auk þess sem hann borðar talsvert af rækju en sá stofn er nú hruninn hér við land.

"Þó að við gerum okkur grein fyrir að loðnan er gríðarlega mikilvægur stofn fyrir lífríkið skiptir hún líka miklu máli almennt talað í atvinnuuppbyggingu víða um landið," segir sjávarútvegsráðherra.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×