Körfubolti

Þetta eru alltaf skemmtilegustu leikirnir

Einar Árni Jóhannson, þjálfari Njarðvíkur
Einar Árni Jóhannson, þjálfari Njarðvíkur

Njarðvík og Keflavík mætast í kvöld í síðasta leik Iceland-Express deildar karla fyrir jól. Leikurinn fer fram í Njarðvík og hefst klukkan 19.15. Liðin eru í fjórða og fimmta sæti fyrir leikinn, bæði með fjórtán stig eftir níu leiki, en Skallagrímur, KR og Snæfell verma fyrstu þrjú sætin, öll með sextán stig eftir tíu leiki.

„Þetta eru skemmtilegustu leikirnir, það er ekki hægt að neita því. Rígurinn og hefðin fyrir þessum leikjum er mikil enda eru leikir þessara félaga alltaf verið stórleikir. Hefðin er mikil,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkinga, um stórleikinn í kvöld.



Félögin hafa marga hildina háð í gegnum tíðina og Einar ítrekar að það verði allt lagt undir í leiknum, sem er mikilvægur upp á stöðu liðanna sem og fyrir sjálfstraustið fyrir komandi átök. „Þetta eru þau félög sem hafa unnið 16 af síðustu 20 Íslandsmeistaratitlum og oftar en ekki eru þetta frábærir körfuboltaleikir. Ég hef ekki trú á neinu öðru en að það verði engin undantekning á í kvöld. Öll þreyta eftir erfitt haust verður lögð til hliðar, þetta er ástæðan fyrir því að menn eru í þessu,“ sagði Einar.



„Ég á von á því að þetta verði spennandi leikur. Heimavöllurinn virðist ekki vera mjög heilagur, bæði lið hafa tapað fáum heimaleikjum en þá helst fyrir þessum erkióvini. Við þurfum að hægja á þeim danska, Thomas Soltau, hann fór illa með okkur í haust. Þeir eru auðvitað með frábært lið en við hugsum auðvitað fyrst og fremst um okkur sjálfa, við þurfum að spila miklu betri vörn en við gerðum í síðasta leik og nýta okkur styrkinn inni í teignum,“ sagði þjálfarinn sem ætlar ekkert að trufla menn í jólahaldinu.



„Eftir leikinn gegn Keflavík tökum við okkur frí og það verða engar hömlur settar á menn um jólin. Við leyfum mönnum að fá sér það sem þeir vilja, svona innan skynsamlegra marka,“ sagði Einar á léttu nótunum að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×