Viðskipti innlent

Benda á veiku blettina hjá fyrirtækjum

Björg Arnardóttir, lánasérfræðingur hjá Lánstrausti.
Björg Arnardóttir, lánasérfræðingur hjá Lánstrausti. MYND/Rósa

Á dögunum sendi Lánstraust hf. út bréf til fjölda fyrirtækja þar sem stjórnendum og forsvarsmönnum þeirra var bent á að tímasetning skila ársreiknings fyrir árið 2005, sem eru liðin, geti haft áhrif á lánshæfismat þeirra. Í bréfinu kemur fram að nýjar upplýsingar um fyrirtæki gefi réttari mynd af þeim og auki jafnframt líkurnar á réttum viðskiptakjörum.

„Rökin fyrir skilaskyldu ársreikninga eru þau, að um nokkurs konar gagngjald sé að ræða fyrir hagræðið af því að fá að stunda atvinnurekstur með takmarkaðri ábyrgð. Aðrir eigi á móti þessu hagræði rétt á að fylgjast með rekstrinum," segir í frétt frá Lánstrausti.

„Það sem hefur mest um að segja við útreikning á ógjaldfærni eru vanskilaskrá og ársreikningar. Því hærri sem líkurnar eru á ógjaldfærni þeim mun hærri áhættuflokki lendir fyrirtækið í.“ Sagði Björg Arnardóttir lánasérfæðingur hjá Lánstrausti.

 

Á annað þúsund fyrirtækja verða ógjaldfær

Lánstraust gefur út tölfræðilegt áhættumat, LT-skor, sem metur líkur á ógjaldfærni íslenskra fyrirtækja til eins og þriggja ára og byggjast útreikningar meðal annars á upplýsingum úr ársreikningum.

Með ógjaldfærni (probability of default) er átt við líkur á því að fyrirtæki verði gjaldþrota eða fái á sig árangurslaust fjárnám. Björg Arnardóttir, lánasérfræðingur hjá Lánstrausti, segir að LT-skorið spái því að 7,1 prósent af hlutafélögum og einkahlutafélögum verði ógjaldfær innan tólf mánaða, eða um 1.695 fyrirtæki.

LT-skorið eykur öryggi í láns- og reikningsviðskiptum til muna því fyrirtæki geta hraðað og bætt ákvörðunartöku við lánveitingar til nýrra eða eldri viðskiptavina, dregið áhættu í láns- og reikningsviðskiptum og auðveldað ákvarðanir við greiðslukjör.

Betri fyrirtæki hagnast á Basel II

Útlánaáhætta er mæld með mörgum mælistikum. „Ein þeirra er notkun tölfræðilegs áhættumats. Matið gengur út á að meta hæfni viðskiptamanns til framtíðargreiðslugetu með það fyrir augum að lágmarka útlánatap í framtíðinni," segir Björg.

Nýjar tilskipanir ESB sem nefndar eru einu nafni Basel II til einföldunar, voru staðfestar 14. júní 2006 og taka þær gildi um áramótin. Basel II regluverkið gerir fjármálafyrirtækjum kleift að reikna út eiginfjárkröfu útlána í samræmi við niðurstöðu innri matsaðferða. „Einstaklingar og fyrirtæki munu verða lánshæfismetin. „Betri" fyrirtæki munu líklega hagnast af innleiðingu þessara reglna, og eiga auðveldara með öflun lánsfjár og fá lánað á lægri kjörum."

Það má segja að Basel II hafi sett leiðbeinandi reglur fyrir fyrirtæki í útlánastarfsemi til að meta útlán eftir líkum á ógjaldfærni. Fyrirtæki geta jafnframt fundið út þessar líkur með ytra mati líkt og LT-skori.

Tíu áhættuflokkar

Reiknilíkanið, sem er undirstaða LT-skors, er hannað af norskum sérfræðingum hjá Creditinfo Decision, systurfélagi Lánstrausts. Björg segir að þegar þær breytur sem segja til um ógjaldfærni fyrirtækja eru rannsakaðar þá eru gögn um öll íslensk hlutafélög skoðuð fjögur ár aftur í tímann ásamt ógjaldfærnigögnum ári síðar. Þannig er fundið með línulegri aðhvarfsgreiningu (línuleg tengsl milli tveggja breyta) hvað er í raun sameiginlegt með þeim fyrirtækjum sem verða ógjaldfær.

Þær upplýsingar sem hafa áhrif við útreikning á ógjaldfærni eru meðal annars upplýsingar úr ársreikningum, skiladagur til ársreikningaskrár Ríkisskattstjóra, vanskilaupplýsingar, starfsemi fyrirtækis, upplýsingar um stjórnarmenn og framkvæmdastjóra og aldur fyrirtækis. Reiknilíkanið setur viðkomandi fyrirtæki í einn af tíu áhættuflokkum. „Það sem hefur mest að segja við útreikning á ógjaldfærni eru vanskilaskrá og ársreikningar. Því hærri sem líkurnar eru á ógjaldfærni þeim mun hærri áhættuflokki lendir fyrirtækið í," bendir Björg á.

Upplýsingar úr ársreikningi hafa ýmist jákvæð eða neikvæð áhrif þegar líkur á ógjaldfærni eru reiknaðar. Björg segir að félög með hátt hlutfall fastafjármuna af heildareignum séu ólíkleg til að verða ógjaldfær en fyrirtæki sem hafa hátt hlutfall veltufjármuna (viðskiptakrafna og vörubirgða) eru hins vegar líklegri til þess. Einnig hefur eiginfjárstaða fyrirtækis áhrif á góða niðurstöðu.

Áhrif skila á ársreikning

„Þá hafa skil á ársreikningi áhrif á niðurstöðu. Tölur okkar sýna að 20 prósent af þeim fyrirtækjum, sem hafa ekki skilað inn ársreikningi árið áður, verða ógjaldfær innan tólf mánaða, hlutfall ógjaldfærra er mun lægra þegar skoðuð eru fyrirtæki sem hafa skilað ársreikningi eða um þrjú prósent," bætir Björg við.

Vanskilaupplýsingar eru einnig notaðar við útreikning LT-skors en þar hefur fjöldi færslna úr vanskilaskrám Lánstrausts og aldur vanskilafærslna áhrif. „Helmingur fyrirtækja með þrjár vanskilafærslur árið 2004 urðu ógjaldfær innan 12 mánaða. Þá var eftirtektarvert að fyrirtæki með þrjá vanskilafærslur, sem hafa skilað inn ársreikningi, eru mun ólíklegri til að verða ógjaldfær en sams konar fyrirtæki sem hafa ekki skilað ársreikningi."

Vanskil stjórnarmanna eða framkvæmdastjóra hafa einnig áhrif á ógjaldfærni fyrirtækja og til lækkunar á áhættuflokkun viðkomandi fyrirtækis.

Fyrirtæki er einnig líklegra til að verða ógjaldfært ef stjórnarmenn þess eru á rekstrarsöguskrá, en þá hafa þeir verið tengdir gjaldþrota fyrirtækjum með ákveðnum hætti. Ennfremur hafa þættir á borð við starfsemi fyrirtækis áhrif, enda fylgir mismikil áhætta einstaka atvinnugreinum. Aldur fyrirtækis skiptir máli að sögn Bjargar. „Áhætta vex þar til fyrirtæki ná þriggja ára aldri en minnkar eftir það. Áhættan er tvöfalt meiri hjá eins árs fyrirtæki en tíu ára gömlu félagi."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×