Skoðun

Er tónlist annars flokks listgrein?

Það er í raun ótrúlegt að það skuli hafa viðgengist í gegnum árin að tónlist og ritlist séu skattlögð með misjöfnum hætti. Ég hef a.m.k. aldrei heyrt nein skynsamleg rök sem gætu réttlætt slíka mismunun. Mér er hulinn sá eðlismunur á tjáningarformunum sem slík tilhögun gæti mögulega grundvallast á.

Árið 2002 var virðisaukaskattur á erlendar bækur lækkaður til samræmis við það sem gilti um íslenskar. Þá snérist málið um lagaákvæði EES samningsins en samkvæmt meginreglum Evrópusambandsins telst slík mismunun vera samkeppnishamlandi. Þá voru ekki allir jafn ánægðir, sérstaklega ekki stjórnvöld sem töldu sig vera að vernda íslenska menningu með því að setja hömlur á innflutning bóka. Íslenskir námsmenn fögnuðu þessari kærkomnu kjarabót sem þeir höfðu lengi barist fyrir. Á sama tíma bentu íslenskir tónlistarmenn á þá augljósu mismunun sem felst í því að leggja hærri virðisaukaskatt á geisladiska en bækur.

Það er óhætt að segja að það hafi verið mikil gróska í íslenskum tónlistariðnaði á undanförnum árum. Íslenskir tónlistarmenn hafa náð ótrúlegum árangri á erlendum vettvangi og þrátt fyrir að allar aðstæður hafi breyst mikið með tilkomu netsins og dregið hafi verulega úr tekjum af sölu geisladiska, hefur íslenskt tónlistarlíf blómstrað. Íslensk tónlist er orðin að alvöru útflutningsgrein. Það er þó varla fyrir tilstuðlan eða stuðning íslenskra stjórnvalda við þessa list- og atvinnugrein sem þessi jákvæða þróun hefur átt sér stað. Í mörg ár hafa forsvarsmenn í greininni hvatt stjórnvöld til að lækka virðisaukaskatt á tónlist þannig að hún standi jafnfætis öðrum sambærilegum listgreinum. Sú ríkisstjórn sem hefur verið við völd síðasta áratuginn hefur hins vegar ekki séð neina ástæðu til að hlusta á rödd þeirra. Íslensk stjórnvöld hafa verið upptekin við að leggja hornstein að stóriðjusamfélaginu, Íslandi tuttugustu og fyrstu aldarinnar.

Þrátt fyrir að áralöng barátta íslenskra tónlistarmanna hafi ekki skilað neinum árangri má segja að steininn hafi nú loks tekið endanlega úr þegar ríkisstjórn Geirs H. Haarde ákvað á dögunum að lækka enn frekar virðisaukaskatt af bókum og breikka þar enn frekar það ósanngjarna bil sem hefur skapast á milli þessara tveggja listforma. Bókaútgefendur og rithöfundar gleðjast auðvitað og það er eðlilegt. Mér þætti þó eðlilegast að íslenskir listamenn stæðu saman í þessu máli og töluðu einni röddu. Ég hvet því íslenska listamenn til að taka höndum saman og þrýsta á stjórnvöld til að framkvæma tafarlausa leiðréttingu. Ég hvet íslenska stjórnmálamenn til að opna augun og sýna einhverja viðleitni í þá átt að styðja við bakið á þessari vaxandi atvinnugrein, sýna með áþreifanlegum hætti að þeir meini eitthvað með því þegar þeir tala á hátíðisdögum um að leggja áherslu á nýsköpun í íslensku atvinnulífi.

Höfundur er viðskiptafræðingur og býður sig fram í 4.-5. sæti á lista Samfylkingarinnar í suðvesturkjördæmi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×