Fastir pennar

Umferðarhnútar skerða lífskjör

Danmörk er um margt fyrirmyndarland. Maður hefur á tilfinningunni að Dönum takist að vinna sér hlutina létt, þeir séu útsjónarsamir og sniðugir. Það er nóg að horfa á danska fótbolta­landsliðið til að sjá að það er eitthvað snjallt við það hvernig Danir vinna; með því að láta boltann ganga, notfæra sér tækifærin um leið og þau birtast, en án þess að vanrækja vörnina.

En Danir eru ekki frekar en aðrir lausir við vandamál. Á fimmtudaginn var birtist í Danmörku skýrsla um umferðarmál. Þar var sérstaklega fjallað um umferðarteppur í Kaupmannahöfn, en umferðin í þeirri borg gengur hægar og hægar með hverju árinu sem líður. Það er metið svo að í Kaupmannahöfn einni kosti umferðartafirnar sex milljarða danskar á ári hverju, um sjötíu milljarða íslenskra króna. Að sjálfsögðu eru Danir ekki sáttir við þetta og krefjast þess að bragarbót verði gerð á. Meira að segja kátur Dani og „ligeglad" að eðlisfari verður uppstökkur og æstur við að eyða mörgum, dýrmætum klukku­stundum á viku í ónauðsynlegt hangs í bíl. Safnast þegar saman kemur og ævin er of stutt í slíka tímaeyðslu.

Samgönguyfirvöld hafa verið gagnrýnd harkalega fyrir að hafa ekki brugðist nægjanlega hratt við fjölgun bíla. Til samanburðar er í Danmörku bent á að Svíar hafi sett til hliðar sem svarar til þrjú þúsund milljarða íslenskra króna til þess að bæta hjá sér vegakerfið. Svíar vilja reyna að grípa til aðgerða gegn umferðarteppum áður en þær byrja að kosta stórfé.

Hið sama er uppi á teningnum hérna hjá okkur í Reykjavík eins og í Kaupmannahöfn. Það tekur lengri og lengri tíma fyrir okkur að komast í og úr vinnu og víða eru biðraðirnar og umferðarhnútarnir hreint út sagt skelfilegir. Afleiðingarnar eru afleitar. Ef við gefum okkur til dæmis að á hverjum vinnudegi eyðum við hálftíma aukalega á leið okkar í og úr vinnu þá þýðir það 2,5 ónýttir tímar á viku, tíu tímar á mánuði, 120 á ári ef ekkert frí er tekið; samtals fimmtán vinnudagar á ári.

Meðalstarfsævin er um fimmtíu ár, en ef tafirnar eru eins og að ofan er lýst fara 750 starfsdagar í ergelsi og bið í umferðinni, það eru tæplega þrjú starfsár. Hefur nokkurt okkar efni á slíkri sóun á hinum einu takmörkuðu gæðum lífsins: tímanum?

Þetta er jafnframt gríðarlegt tap fyrir þjóðfélagið. Við spillum umhverfinu okkar með því að bílarnir menga meira sem þessu nemur. Óþarfur útblástur koltvísýrings er alvarlegur vandi, en bíll sem er í gangi 120 tíma aukalega á ári er skaðræðis mengunarvaldur. Bensínið sem við eyðum aukalega kostar sitt og bílarnir slitna hraðar en ella. Þessar umferðartafir kosta bæði beinharða peninga og menga umhverfið. Það er vont til þess að hugsa hversu illa hefur verið haldið á þessum málum hér í höfuðborginni undanfarin tólf ár. Framkvæmdir hafa dregist von úr viti og þáverandi stjórnendur borgarinnar létu sér í léttu rúmi liggja vaxandi umferðarþunga, sennilega af óvild í garð fjölskyldubílsins.

En umferðartafirnar eru ekki bara leiðinlegar, dýrar og mengandi. Þær halda okkur frá fjölskyldum okkar, áhugamálum eða vinnu. Ef við ynnum í stað þess að sitja í bílunum og gefum okkur að það sé eftirspurn eftir þessari auknu vinnu, þá myndi þjóðarframleiðslan aukast umtalsvert.

Fjárfestingar í umferðarmannvirkjum myndu því fljótt borga sig í beinhörðum peningum ef við notum þessa klukkutíma sem við sitjum í bílunum til að vinna og skapa þannig auð fyrir allt samfélagið.

En kannski viljum við, í stað þess að vinna meira, verja lengri tíma með ástvinum okkar, sinna betur áhugamálunum, dytta að húsunum okkar eða hvað það nú er sem við viljum frekar gera en að hanga í umferðarhnútum. Samverustundir með fjölskyldunni auka ekki þjóðarframleiðsluna og mynd máluð úti í bílskúr sér til dundurs þarf ekki endilega að seljast.

En getur nokkur deilt um verðmæti slíkrar iðju? Þó okkur hagfræðingum sé tamt að horfa fyrst og síðast til þjóðarframleiðslunnar sem mælikvarða þá er nauðsynlegt að nálgast ákvarðanir um fjárfestingar í innviðum samfélagsins eins og umferðarmannvirkjum út frá víðara sjónarhorni.

Í stað þess að hugsa um þjóðarframleiðslu eina og sér þá eigum við að hugsa um þjóðarvelferð, það hvernig okkur líður í samfélaginu okkar, hvernig við verjum tímanum. Auðvitað er það þannig að við getum ekki lagt tölulegt mat á þjóðarvelferð. En það segir sig sjálft að fjárfestingar í umferðarmannvirkjum sem leiða til þess að við getum varið meiri tíma í faðmi fjölskyldunnar en ella, borga sig vel upp á þann mælikvarða.

Hvort sem við horfum á þjóðarframleiðslu eða þjóðar­velferð þá er skynsamlegt að ráðast gegn umferðartöfum í höfuðborginni. Því fyrr, því betra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×