Innlent

Matarinnkaup lækka um fimmtíu þúsund

Matarinnkaup fjölskyldunnar lækka um fimmtíu þúsund krónur á ári, gangi tillögur nefndar forsætisráðherra eftir. Nefndin var skipuð í upphafi árs og var ætlað að fjalla um helstu orsakaþætti hás matvælaverðs á Íslandi og gera tillögur sem miða að því að færa matvælaverð nær því sem gengur og gerist í helstu nágrannaríkjum. Í nefndinni sátu fulltrúar fjögurra ráðherra og fimm hagsmunasamtaka.

Meðal þess sem nefndin gerir tillögur um er að vörugjald á matvælum verði fellt niður og að öll matvara beri fjórtán prósenta virðisaukaskatt en ýmsar vörur – einkum það sem kallað er munaðarvörur – bera 24,5 prósenta virðis­aukaskatt.

Þau sjónarmið voru uppi í nefndinni að fella niður tolla á innfluttum landbúnaðarvörum en fulltrúi Bændasamtakanna í nefndinni lagðist alfarið gegn þeim. „Við vorum ekki tilbúin til að ræða einhliða stór skref í tollabreytingum,“ segir Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur hjá Bændasamtökunum.

„Okkur komu á óvart þær hugmyndir sem ræddar voru í nefndinni um að gera miklu meira í færri og stærri skrefum heldur en áður hefur verið rætt um af hálfu stjórnvalda. Einhliða lækkun á tollum er ekki eitthvað sem þjóðir eru almennt að gera. Þetta er ákveðið samningstæki og við hljótum að vilja fá einhvern ávinning fyrir aðra atvinnustarfsemi í landinu á móti.“

Erna bendir á að Ísland hefur verið í viðræðum við Alþjóðaviðskiptastofnunina varðandi niðurfellingu tolla á landbúnaðarvörum og eðlilegra sé að láta þróunina hér miða við straumana þar.

„Alþýðusamband Íslands hefur talað fyrir ágengari málflutningi varðandi niðurfellingu á landbúnaðartollum og ég held það sé óhætt að segja að það hafi borið breiðast þar á milli.“

Nefndin mun skila skýrslu til forsætisráðherra á næstu dögum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×