Fastir pennar

Þreyttir þurfa hvíld

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn mynduðu þriðju ríkisstjórnina í röð vorið 2003, birtu þeir nýja stefnuyfirlýsingu. Það tíðkast. Yfirlýsingin bar þreytulegan svip og vakti ekki mikla athygli. Nú nálgast örlagastundin: ríkisstjórninni er vart hugað líf til hausts, þótt hún kunni að sitja til vors. Við skulum horfa um öxl og rifja upp nokkur atriði úr yfirlýsingunni frá 2003. Þar vottaði að sönnu fyrir vilja til góðra verka á ýmsum sviðum, en þar var einnig ýmislegt athugavert.

Stjórnarflokkarnir hældust um af því að hafa leitt af sér lengsta samfellda skeið vaxandi kaupmáttar og hagsældar í Íslandssögunni. Þeir hefðu mátt bæta því við, að þjóðin hafði á sama tíma safnað meiri skuldum í útlöndum en nokkru sinni fyrr bæði heimilin og fyrirtækin. Hagvöxtur síðustu ára hefur að miklu leyti verið knúinn áfram með erlendu lánsfé, sem þjóðin á eftir að standa skil á. Þyngd skyldabyrðarinnar og gengi krónunnar og efnahagslífsins fer á endanum eftir því, hversu vel menn hafa farið með allt þetta erlenda lánsfé. Gengisfallið að undanförnu hefur aukið við skuldirnar: erlendar skuldir þjóðarbúsins í lok marz 2006 námu 323 prósentum af landsframleiðslu á móti 291 í árslok 2005 og 120 í árslok 2002.

Haldið verður áfram uppbyggingu í menntakerfinu með það að markmiði að Íslendingar skipi sér enn sem fyrr á bekk meðal fremstu þjóða heims. Þessi fullyrðing lýsir ekki næmum skilningi á þeirri einföldu staðreynd, að næstum 40 prósent Íslendinga á aldrinum 25-34 ára hafa samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar engrar menntunar aflað sér umfram grunnskóla og gagnfræðapróf eða samsvarandi, en svo er ástatt um aðeins 7 til 14 prósent af mannaflanum annars staðar um Norðurlönd. Ríkisstjórnin hefur vanrækt menntamál og menningu, eins og þráfelldur fjárskortur í þessum málaflokkum vitnar um.

Áherzla verður lögð á samheldni þjóðarinnar... Þessi ásetningur er dásamlegur í ljósi þess, sem á undan var gengið (kvótamálið, Kárahnjúkar o.fl.) og sem í vændum var. Þáverandi forsætisráðherra jós fáheyrðum svívirðingum yfir menn, svigurmæli hans um þekktan kaupsýslumann voru dæmd dauð og ómerk í Héraðsdómi Reykjavíkur 2004, hann sakaði fyrrum formann einkavæðingarnefndar ríkisstjórnarinnar til tíu ára um að hafa reynt að múta sér, reyndi að loka Fréttablaðinu, Stöð 2 og fleiri fjölmiðlum með lögum, sem forseti Íslands synjaði undirskriftar, og klykkti síðan út með því að hafa að engu ákvæði stjórnarskrárinnar um þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar sumarið 2004. Nokkru eftir að atlagan mistókst, fékk ráðherrann sér hvíldarinnlögn í Seðlabankanum. Síðan hann lagðist þangað inn, hefur gengi krónunnar fallið um röskan fjórðung og verðbólgan rokið upp, og hún er nú enn á ný mest í allri Evrópu að Tyrklandi einu undanskildu. Launþegi, sem gat fengið 4.000 evrur fyrir mánaðarlaunin sín í janúar, fær nú í júní innan við 3.000 evrur fyrir sömu laun.

Ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar verði bundið í stjórnarskrá. Takið eftir tímasetningunni. Fyrst afhenda þeir útvegsmönnum fiskimiðin á silfurfati og þverneita þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir að gera grein fyrir fjárreiðum sínum, og þegar allt er klappað og klárt, finnst þeim tímabært að binda í stjórnarskrána því hana geta þeir brotið eftir vild án þess að þurfa að svara til saka eins og dæmin sanna lagaákvæðið um, að fiskmiðin séu sameign þjóðarinnar.

Varnarsamstarfið við Bandaríkin verði þungamiðja öryggisstefnu þjóðarinnar hér eftir sem hingað til, ... Þeir vissu það þá eins og aðrir, að Kaninn væri á förum frá Keflavík, og þeir hrærðu hvorki legg né lið til að tryggja varnir landsins á annan hátt. Þeir lofuðu að tryggja að jafnvægi og stöðugleiki ríki í efnahagsmálum þjóðarinnar. Stöðugleikinn er nú rokinn út í veður og vind. Þeir lofuðu, að Ísland haldi stöðu sinni sem forystuþjóð í umhverfismálum. Þetta loforð er út í bláinn líkt og gamla loforðið um vímulaust Ísland: það er ekkert á bak við það. Búfé og hross ganga laus um landið og spilla því eins og endranær, og Kárahnjúkavirkjun veldur gríðarlegum og óafturkræfum náttúruspjöllum öndvert t.d. ýmsum fossavirkjunum Norðmanna. Er ekki komið nóg?





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×