Fastir pennar

Alltaf kaus ég Framsókn

Mínar fyrstu kosningar voru árið 1971. Tólf ára gamall bar ég út áróður fyrir Allaballa og vonaði innilega að gömlu sixtís-karlarnir, sem heilsuðu með því að taka ofan hattinn og þéruðu hvorir aðra, töpuðu sem mest. Það varð úr. Vinstrimenn unnu loks góðan sigur og komust í ríkisstjórn. Hinsvegar gleymdi barnshugurinn að reikna með Framsókn. Óli Jó varð forsætisráðherra. Og hefur verið það síðan.

Allt mitt pólitíska líf hefur Framsókn setið í ríkisstjórn utan eitt kjörtímabil. Í 35 ár hefur engum tekist að mynda hér ríkisstjórn án þátttöku Framsóknar. Þrátt fyrir að maður hafi aldrei kosið Framsókn hefur maður í raun alltaf kosið Framsókn.

Halda mætti að Framsóknarflokkurinn sé flokkur þjóðarinnar en ekki sá skrýtilegi þjóðflokkur sem hann er.

Ég kynntist honum ungur. Vinur minn var af Framsóknarættum. Ég sá strax að framsóknarmenn voru gott fólk en dálítið sérstakt: Undarleg blanda af sveitamönnum og græjufíklum. Þeir áttu nýjustu sportbílana frá Ameríku en drukku mjólk með matnum. (Hummerinn góði var því í hefðbundnum framsóknaranda.) Á meðan fingur léku á frumtölvur var hugurinn í heyskap. Það var alltaf örlítil flóttamannastemmning á heimilum þessa fólks, líkt og væru þau landflótta Palestínumenn búsettir í New York. Hvert símtal skilaði fréttum af heimavígstöðvum: "Þau náðu að klára allt Norðurtúnið í gærkvöldi. 560 baggar. Svo var víst farið að rigna í morgun." Ég sat stóreygur í miðri stofunni, með flatköku í munninum en spurningu í hausnum - um hvað voru þau eiginlega að tala?

Helsta sérkenni framsóknarfólksins var hið mikla samstöðuafl þess sem minnti helst á sértrúarsöfnuð. Framsóknarmenn voru af Íslands bestu ætt. Sérhver fundur var ættarmót. Talað var um genetískt framsóknarfólk. Flokkurinn óx því eins og fjölskylda og gat þess vegna aldrei orðið mjög stór. Eina von hans nú er viagra.

Með tímanum áttaði ég mig á því að forkólfar Framsóknar voru rammspilltir á þann séríslenska og barnslega hátt sem telur sig gera öllum vel en hleður þó mest undir eigin rass. Sonurinn fær sumarvinnu í ráðuneytinu... sem aðstoðarmaður ráðherra. Formaðurinn fær gefins nokkra símastaura... og reisir úr þeim sumarbústað. Göngin tryggja samgöngur í kjördæminu... og kallinum sæti á þingi.

Enginn hefur gott af því að sitja endalaust í stjórn.

Að undanförnu hefur manni svo beinlínis blöskrað helmingaskiptafrekja þessa litla flokks sem þykist eiga hálft Ísland og forsætisráðuneytið að auki. Flokkurinn gekk langt í Búnaðarbankasölunni og ekki var kurteisinni fyrir að fara að loknum nýliðnum sveitarstjórnarkosningum. Sá sem tapaði mest fékk næstmest völd. Framsókn sýpur nú seyði af valdafrekju sinni. Og ekki mun taktleysi flokksins í kjölfar kosningataps bæta úr. Hrunið blasir við.

Og það byrjar með upplausn. Menn sem þykjast stjórna landsmálum hafa enga stjórn á eigin málum. Halldór á hrós skilið fyrir að segja af sér vegna kosningataps fyrstur íslenskra stjórnmálamanna (Davíð gerði það reyndar líka en með tveggja ára löngum semingi) en klaufagangurinn í kringum það er ansi framsóknarlegur. "Ég mun leiða nýjar stjórnarmyndunarviðræður," sagði Halldór á Þingvöllum en í Reykjavík sagði Haarde það rangt. "Guðni er búinn að lofa að hætta líka," sagði Halldór á Þingvöllum en á Selfossi sagði Ágústsson það rangt. Á föstudegi var sagt að Halldór myndi hætta. Á sunnudegi var sagt að hann væri hættur við að hætta. Um kvöldið var hann hættur en þó ekki sem formaður...

Í millitíðinni var Mogginn búinn að ræsa út Finn Ingólfsson sem næsta formann með einu af sínum gagnsæju opnuviðtölum þar sem erfiðasta spurningin er "Ert þú ekki frábær?" Það átti að venja þjóðina við tilhugsunina um Finn sem formann. En allt var það spólað til baka, líkt og Guðni spólaði reiður út af stæðinu á bökkum Öxarár í beinni á NFS.

Báðir eru þeir helsta von okkar sem dreymir um að þurfa ekki að halda áfram að kjósa Framsókn.

Finnur er spillingarkóngur flokksins. Hann var bankamálaráðherra þegar einkavæðing bankanna hófst en sat svo óvænt hinumegin við borðið þegar henni lauk. Hvar var hann í millitíðinni? Jú, undir borðinu. (Af því spratt frasinn: "Enginn á fund sem Finnur".) Með því að gera Finn að formanni er flokkurinn að segja: "Spilling er okkar fag".

Guðni er minnisvarði um flokkinn sem var. Um gamla góða kleinuflokkinn sem okkur þótti svo vænt um. Flokkur fullur af þjóðsögum og íslenskri fyndni sem maður veit ekki alltaf hvort byggist á orðheppni eða óheppni. Guðni er maðurinn sem vaknar á morgnana, fer inn á bað og segir stundarhátt við sjálfan sig: "Þar sem tveir Guðnar koma saman, þar er spegill." Enginn man eftir að Guðni hafi gert neitt í landbúnaðarráðuneytinu og enginn þarf að óttast flokk undir hans stjórn.

Það er ekki leiðinlegt að sjá Framsóknarflokkinn loga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×