Fastir pennar

Hvað á að rannsaka?

Fyrirlestur Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings um símahleranir á dögum kaldastríðsins hafa að vonum vakið nokkra athygli. Rannsókn er sameiginlegt viðbragðsorð flestra sem um málið fjalla. En hvað á að rannsaka?

Í því samhengi sýnist athygli manna beinast annars vegar að þeim tilteknu stjórnvalds- og dómsathöfnum sem greint hefur verið frá og hins vegar að víðtækara sagnfræðilegu uppgjöri við kaldastríðsárin. Bæði viðfangsefnin eru áhugaverð.

Þau tilvik um símahleranir sem greint hefur verið frá byggðust lögum samkvæmt á dómsúrskurðum. Þau atvik ein og sér gefa því ekki tilefni til að kanna lögmæti þeirra athafna. Það gerðu dómstólar á sínum tíma. Hér þarf því að skilgreina hvað annað á að rannsaka.

Guðni Th. Jóhannesson staðhæfir að öllum gögnum sem fengust úr þessum hlerunum hafi verið eytt ekki síðar en árið 1977. Hér þurfa stjórnvöld að upplýsa um þær reglur sem gilda um eyðingu gagna af þessu tagi.Voru sérstakar ástæður fyrir því að þessum gögnum var eytt? Vera má að tilefni sé til að athuga þann þátt sérstaklega. Það fer nokkuð eftir upplýsingum stjórnvalda þar að lútandi.

Ekki er óeðlilegt að spurningar vakni með hliðsjón af þessari umræðu um vörslu mikilsverðra gagna og mögulega eyðingu þeirra. Rétt er þó að hafa í huga að engar vísbendingar hafa komið fram þar að lútandi um önnur efni.

Eins og málum er komið er rétt að þeir einstaklingar sem hlut eiga að máli fái upplýsingar þar um. Þeir geta síðan gert þær opinberar ef þeim sýnist svo.

Í tilefni þessarar umræðu hefur dómsmálaráðherra minnt á að hann hefur oft sinnis áður lagt til að efnt yrði til víðtækrar alhilða sagnfræðilegrar rannsóknar á kaldastríðstímanum. Slík rannsókn tæki að sjálfsögðu til einstakra stjórnvaldsathafna. En hún yrði miklu víðtækari með því að henni væri ætlað að leita dýpri skýringa á stjórnmálaátökum þessa tíma.

Gild rök eru fyrir þessum sjónarmiðum dómsmálaráðherra. Rannsóknir af þessu tagi þekkjast sums staðar erlendis. Einstakir sagnfræðingar hafa reyndar þegar lagt fram markvert framlag um þessi efni þótt heildstæð rannsókn hafi ekki farið fram enn sem komið er.

Upphaf síðari heimsstyrjaldar fellur að vísu utan þröngrar skilgreiningar á kalda stríðinu. Eigi að síður er vert að hafa í huga í þessu viðfangi að stjórnmálalegt uppgjör hefur aldrei farið fram gagnvart þeirri staðreynd að Ísland var hlutlaust gagnvart Hitlers-Þýskalandi. Kaldastríðstíminn kallar vissulega á ýmsar sagnfræðilegar uppgjörsspurningar af þessum toga.

Stjórnarandstaðan hefur boðað að hún muni taka þessi mál til umræðu á sumarþinginu. Forseti Alþingis hefur með athyglisverðum hætti bent á fordæmi um það hvernig aðrar þjóðir hafa brugðist við svipuðum tilvikum.

Rétt væri að ríkisstjórnin tæki frumkvæði í því hvernig þessi umræða verður til lykta leidd þannig að hún endi ekki í ómarkvissu málþrefi. Rök standa aukheldur til þess að mæla með því að þessi mál verði skoðuð í víðu samhengi fremur en þröngu.

Frumkvæði ríkisstjórnarinnar um málsmeðferð er mikilvægt. En markmiðið með því ætti að vera að ná samstöðu á Alþingi um viðbrögð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×