Fastir pennar

Og liðið er nú ár

Ég varði áramótunum í Danmörku. Ég var svolítið fordómafullur fyrst í stað, ekki viss um að Danirnir réðu við að halda áramót en þegar á reyndi sprengdu þeir meira en nóg fyrir mig og mína. Í Danmörku er líka flottari snjór en á Íslandi; og tré; og það sem verður að teljast verulegt áfall fyrir Íslendinga: Danir eru með miklu flottari snjóruðningsgræjur en Íslendingar.

Þegar ég varð þess var að verið var að horfa á okkur sem Íslendinga þá fannst mér sem snöggvast að ég yrði að standa undir því nýja nafni sem þjóðin er sögð vera að skapa sér hér ytra og verða ógurlega drífandi og duglegur að sjá nýja möguleika á svæðinu ¿ bjóðast til að kaupa húsið og breyta því í Möntvask sem manni skilst að sé sérstök íslensk uppfinning ¿ En því miður, mér datt ekkert í hug og hélt áfram að kyrja með hinum Máninn hátt á himni skín og Nú árið er liðið. Vonaði að það væri nógu íslenskt.

Nú árið er liðið og hvað gerðist? Til dæmis það að Íslendingar vaða yfir allt eins og logi yfir akur í Danmörku og kaupa allt sem þeir sjá á meðan heimamenn horfa ögn gáttaðir á aðfarirnar. Að öðru leyti er erfitt að rifja upp atburði ársins, sérstaklega þegar maður situr í útlöndum og klórar sér í hausnum. Mér er til dæmis ógerningur að muna hvort Íslendingar halda til streitu umsókn sinni um aðild að Öryggisráðinu svo að dæmi sé tekið af máli sem var á baugi. Var ekki árið svolítið eins og stund milli stríða? Logn eftir storminn? Eða á undan honum? Ár hins lognmilda Geirs Haarde?

Því að þetta var árið þegar Davíð Oddsson hætti ráðherradómi og hlammaði sér niður í Seðlabankann, kvaddi þannig stjórnmálin að sinni að minnsta kosti eftir að hafa hleypt öllu í bál og brand með yfirgengilegum átökum við alls konar viðskiptamenn. En það var ekki Samfylkingin sem uppskar ¿ heldur Geir Haarde sem öllum líkar geysivel við fyrir þær sakir að hann lætur ekki eins og Davíð Oddsson.

Þetta var árið þegar allir tóku fimbullán út á húsnæðið sitt en eyddu peningunum því miður í vitleysu á borð við jeppa og pallbíla.

Þetta var árið þegar Reykja­víkurlistinn var lagður niður af Vinstri grænum sem gerðust þannig nokkurs konar Jóhannes skírari fyrir Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson.

Þetta var árið þegar allir töluðu um að "spá í því".

Þetta var ár hamfara og óskapa víða um lönd og stjórnvöld brugðust með ýmsum hætti: í Bandaríkjunum sannaði George W. Bush eftirminnilega eigið vanhæfi á ögurstundu þegar flóðin urðu í New Orleans en í Bretlandi elti lögreglan saklausan mann uppi og tók af lífi með köldu blóði fyrir þær sakir einar að hann var í úlpu og dökkur yfirlitum ¿ þetta gerðist eftir hryðjuverkin í London. En þegar hamfarir urðu í Pakistan og milljónir á vergang sendi íslenska ríkisstjórnin minna fé en til Bandaríkjanna eftir flóðin þar.

Þetta var árið þegar íslenskar bíómyndir urðu útlenskar.

Þetta var árið sem allt gekk á afturfótunum á Kárahnjúkum.

Þetta var árið þegar Morgunblaðið gerðist aftur málgagn Geirs Hallgrímssonar í deilum hans við Gunnar Thoroddsen. Einhver hefði haldið að það mál væri löngu útkljáð en Reykjavíkurbréf blaðsins hafa engu að síður að undanförnu snúist mjög um það að rétta hlut þessa mikla hluthafa í blaðinu, rétt eins og þau gerðu í gamla daga ¿ milli þess sem deilt er á Fréttablaðið fyrir að vera í eigu kaupmanna í Reykjavík. Þeir kaupmenn munu að sögn vera "vonda auðvaldið" en eins og Matthías skáld benti á í ítarlegri greinargerð fyrir jólin þá störfuðu þeir Styrmir fyrir "gott auðvald" - svo gott raunar að blaðið á enn í harðvítugum deilum fyrir hönd þessara eigenda sinna.

Þetta var árið þegar laga­deilur Baugs við stofnanir Sjálf­stæðisflokksins stóðu sem hæst - og eru varla byrjaðar enn. Muna lesendur eftir köflunum í Njálu þegar menn standa á þingi og segja: "Lýsi ég þar lýriti og lýsi ég þar lögriti" og fara svo að þvaðra eitthvað um holundar sár og mergundar áður en þeir "ryðja dóminn"? Þegar mest gekk á í Baugsmálum fannst manni stundum eins og maður væri að upplifa þessa kafla úr Njálu og botnaði ámóta mikið í þessu. Almenningur er eflaust að verða hálf þreyttur á þessum væringum og sennilega er þarna ein af skýringum þess að Samfylkingin hefur átt undir högg að sækja hjá kjósendum að undanförnu: fólk tengir flokkinn við annan deiluaðilann - en finnst að Geir Haarde standi utan við þetta allt saman.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×