Sport

Skrópaði í herþjónustu

Vlade Divac á ekki von á blíðum móttökum þegar hann kemur heim til Serbíu, þar sem herinn vill að hann ljúki herþjónustu sinni eins og allir aðrir
Vlade Divac á ekki von á blíðum móttökum þegar hann kemur heim til Serbíu, þar sem herinn vill að hann ljúki herþjónustu sinni eins og allir aðrir NordicPhotos/GettyImages

Þær fregnir hafa borist frá Bandaríkjunum að körfuboltamaðurinn Vlade Divac, sem nýlega lagði skóna á hilluna og er farinn að starfa sem útsendari fyrir LA Lakers í Evrópu, hafi skrópað í herþjónustu í heimalandi sínu Serbíu og Svartfjallalandi og hefur herinn nú lagt fram kæru á hendur honum.

Divac, sem er 37 ára gamall, átti venju samkvæmt að gegna sex mánaða herskyldu í heimalandinu áður en hann yrði 35 ára, en ef hann verður fundinn sekur af ákærum þessum, gæti hann átt yfir höfði sér allt að eins árs fangelsi í Serbíu.

Umboðsmaður Divac hafði það að segja um málið að Divac þætti hann alltaf hafa verið þjóð sinni til sóma og benti á að hann vildi landi sínu og þjóð ekkert nema vel, enda vonaðist hann til að málið leystist á friðsamlegan hátt sem fyrst.

Divac var einn fyrsti Evrópubúinn til að láta almennilega að sér kveða í NBA deildinni og spilaði þar síðan árið 1989 við góðan orðstír. Hann var gríðarlega vinsæll í heimalandi sínu og fékk fjölda áskorana um að bjóða sig fram í forsetakostningunum árið 2000, eftir að Milosevic féll frá völdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×