Sport

Utah setti vafasamt félagsmet

Leikmenn Utah Jazz vilja eflaust gleyma leiknum í gær sem fyrst, en hann var einn sá lélegasti í sögu Delta Center, heimavallar liðsins
Leikmenn Utah Jazz vilja eflaust gleyma leiknum í gær sem fyrst, en hann var einn sá lélegasti í sögu Delta Center, heimavallar liðsins NordicPhotos/GettyImages

Þrír leikir voru á dagskrá í NBA deildinni í körfubolta í nótt. Memphis vann auðveldan sigur á Los Angeles Lakers, Utah tapaði heima fyrir New York Knicks og Golden State vann auðveldan sigur á Chicago Bulls.

Memphis 85 - LA Lakers 73. Pau Gasol skoraði 20 stig og hirti 10 fráköst hjá Memphis, en Kobe Bryant skoraði 18 stig fyrir lið Lakers, sem náði sér aldrei á strik í leiknum í gær. Þessi viðureign var í beinni útsendingu á NBA TV á Digital Ísland.

Utah 62 - New York 73. Utah setti félagsmet með því að hitta úr innan við 30% skota sinna utan af velli í leiknum og stigaskorið var eitt hið lægsta á heimavelli í áratugi. Fjórir byrjunarliðsleikmenn Utah voru meiddir og gátu ekki spilað leikinn í gær og því fengu nýliðar liðsins að spreyta sig. Utah var aðeins með 11 menn til taks í leiknum.

Nýliðinn Deron Williams skoraði 18 stig fyrir Utah, en Jamal Crawford var með 20 stig fyrir New York, sem hefur ekki fengið á sig færri stig í einum leik síðan skotklukkan var tekin í notkun. Utah skoraði aðeins 8 stig í þriðja leikhlutanum.

Golden State 100 - Chicago 82. Jason Richardson skoraði 32 stig fyrir Golden State en Andrea Nocioni var með 17 stig fyrir Chicago.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×