Sport

Fjölmiðlamenn ráku þjálfara

Ólafur Jóhannesson þjálfari Íslandsmeistara FH í knattspyrnu karla segir að ýmsir blaðamenn hafi óbeint með skrifum sínum rekið þjálfara liða úr störfum sínum í Landsbankadeildinni í sumar. Þetta sagði Ólafur í ræðu á formannafundi allra aðildarfélaga KSÍ sem fram fór á Hótel Nordica í morgun. Ólafur rökstuddi mál sitt ekki frekar hvað þessi orð varðar og nefndi ekki nöfn neinna sérstakra þjálfara, né hvaða fjölmiðlafólk hann ætti við.

Ef að líkum lætur koma fræðilega séð þrír þjálfarar til greina sem Ólafur á þarna við. Magnús Gylfason var rekinn frá KR á síðari hluta tímabils, Þorlákur Árnason hætti óvænt hjá Fylki skömmu undir lok móts og þá hætti Ásgeir Elíasson að þjálfa Þrótt eftir slæmt gengi á miðju móti.

Ólafur sló reyndar talsvert á létta strengi í ræðu sinni eins og honum einum er lagið og hafði á orði að FH ætlaði sér að fá sex nýja erlenda leikmenn fyrir næsta tímabil. Ekki getur þó talist líklegt að af því verði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×