Innlent

Ýjar að því að hafa gögn um Baug

Ritstjóri Morgunblaðsins lætur óbeint að því liggja í blaðinu í dag að hann hafi undir höndum gögn sem sýni að Jón Ásgeir Jóhannesson hafi gefið lögfræðingum sínum fyrirmæli um að ganga á milli bols og höfuðs á Jóni Gerald Sullenberger, bæði fjárhagslega og viðskiptalega. Styrmir Gunnarsson ritstjóri fer þannig í málið að varpa fram þeirri spurningu hvort satt sé að einhverjir aðilar á vegum fyrrverandi viðskiptafélaga Jóns Geralds Sullenbergers hjá Baugi hafi ráðið einkaspæjara í Bandaríkjunum til þess að rannsaka einkahagi hans og eiginkonu hans og líf þeirra allt. Í sama dúr spyr Styrmir hvort til sé tölvupóstur yfir það að Jón Ásgeir Jóhannesson hafi gefið fyrirmæli til lögfræðinga sinna um að það skuli gengið milli bols og höfuðs á Jóni Gerald fjárhagslega og viðskiptalega. Hann segir þó ekki nánar hvort það séu einmitt þau gögn, sem blaðið hefur undir höndum, og svari þá áðurnefndum spurningum, en óneitanlega bendir flest til þess. Hann segir enn fremur að það hefði komið sér illa fyrir Baugsmenn ef Morgunblaðið hefði á sínum tíma birt gögn um innanhússamskipti milli manna í Baugi og milli þeirra annars vegar og viðskiptafélaga þeirra í Flórída hins vegar. Þau gögn séu enn í fórum blaðsins og um helgina hafi ýmsir kvatt sig til að birta þau í ljósi þess að blað í eigu Baugsmanna hafi verið að birta gömul tölvupóstsviðskipti sín við annað fólk. Styrmir segist vera að hugleiða þessar hvatningar og segir svo orðrétt:  „Það sem mælir á móti að gera það, úr því sem komið er, er einfaldlega það að maður á helst ekki að brjóta eigin starfsreglur þótt aðrir geri það. En svo er sagt að nauðsyn brjóti lög,“ segir Styrmir Gunnarsson. Hann hefur boðað til fundar með starfsmönnum sínum klukkan tvö í dag til að skýra málið fyrir þeim.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×