Innlent

Sagt í gamansemi segir Styrmir

Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, segir orðalag í tölvubréfi sínu til Jónínu Benediktsdóttur um að „fingraför Morgunblaðsins“ skuli þurrkuð út, hafa verið notað í gamansemi. Fréttablaðið greinir meðal annars frá því í dag að Jón Gerald Sullenberger hafi notið aðstoðar Morgunblaðsins við að þýða á ensku skjal í tengslum við kæru hans gegn Baugi. Þýðinguna vann blaðamaður á Morgunblaðinu og skjalið sendi Styrmir Jónínu, en í grein í sunnudagsblaði Morgunblaðsins, sem var að koma úr prentsmiðjunni, segist Styrmir hafa litið svo á að Jónína væri sérstakur fulltrúi Jóns Geralds hér á landi. Styrmir segir að sér hafi þótt þetta óþægilegt, enda ekki helsta verkefni Morgunblaðsins að veita slíka þjónustu, en hér hafi verið um að ræða einstakling með lítið fjárhagslegt bolmagn sem átti í deilum við eitt stærsta fyrirtæki á Íslandi. Það sé dýrt að láta löggiltan skjalaþýðanda þýða texta. Styrmir segir svo að hann hafi ekki viljað að það kæmi fram hvaðan tölvupósturinn kæmi. Í lok greinar sinnar, þar sem hann skýrir í löngu máli aðkomu sína að Baugskærunni, segir ritstjóri Morgunblaðsins að sér hafi verið boðin gögn til birtingar sem augljóslega hafa verið þjófstolin. Í slíkum tilvikum hafi þeir, sem slíkt hafa boðið, umsvifalaust verið reknir á dyr. Styrmir Gunnarsson beinir orðum sínum augljóslega til Fréttablaðsins því að það byggir fréttir sínar á tölvusamskiptum einstaklinga sem áttu af efni þeirra að dæma ekki að fara lengra.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×