Sport

Sterkir í skotapilsum á Skagnum

Í dag verður Íslandsmótið í Hálandaleikum á haldið á Akranesi, þar sem flestir okkar fremstu víkingar etja kappi í kastgreinum á skoska vísu. Sterkasti maður Íslands, Kristinn Óskar Haraldsson "Boris" verður á meðal keppenda ásamt Auðunni Jónssyni "Verndara" og auk þeirra verða þeir Sæmundur Sæmundsson, Unnar Garðarsson, Óðinn Björnsson, Heiðar Geirmundsson, Jens Fylkisson og gamli kúluvarpskóngurinn Pétur Guðmundsson í eldlínunni. Boris er í óðaönn að undirbúa sig fyrir keppnina Sterkasti maður heims, sem fram fer í Kína í lok mánaðarins og þegar Fréttablaðið náði tali af honum í gær, sagðist hann vel sáttur við að taka þátt í einni "léttri" keppni áður en hann færi út. "Þetta er af dálítið öðrum toga en aflraunirnar, en þetta er rosalega skemmtilegt. Maður á munn síður á hættu að meiða sig í þessu en í aflraununum og þetta er bara skemmtileg tilbreyting. Það er ómögulegt að segja til um það hverjir eru sigurstranglegastir í þessari keppni, en ég tippa á að þeir Pétur Guðmundsson og Sæmundur eigi eftir að verða mjög öflugir," sagði Óskar, sem viðurkennir að hann sé ekki mesta tæknitröllið í hópnum, en segist vega það upp með styrk. "Þeir Sæmi og Pétur eru mjög líklegir, en svo er Auðunn nýkominn af Evrópumótinu um síðustu helgi þar sem hann hafnaði í fimmta sæti, svo að þetta verður mjög spennandi," sagði Boris. Keppnin hefst við Skógræktina á Akranesi klukkan 14 í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×