Sport

Þrír jafnir í efsta sæti

Suður-Afríkumaðurinn Retief Goosen og Bandaríkjamennirnir Olin Browne og Jason Gore eru efstir og jafnir á tveimur höggum undir pari samtals eftir tvo keppnisdaga á Opna bandaríska mótinu í golfi, öðru risamóti ársins. Kóreumaðurinn K.J. Choi og Ástralinn Mark Hensby eru í öðru sæti, höggi á eftir, en aðeins fimm kylfingar eru undir pari eftir 36 holur á hinum geysierfiða Pinehurst-velli 2 í Norður-Karólínu. Fjórir kylfingar eru á pari: Vijay Singh, Sergio Garcia, Lee Westwood og Michael Campbell. Sjö kylfingar eru á einu höggi yfir pari, þar á meðal eru Tiger Woods, Jim Furyk og Adam Scott. Phil Mickelson og Ernie Els eru á sex og sjö höggum yfir pari og komust í gegnum niðurskurðinn sem var átta yfir pari eða betra. Svíinn Peter Hedblom lék best allra í gær og var á 66 höggum og er samtals á þremur höggum yfir pari. Fjölmargir þekktir kylfingar eru úr leik, t.d. Chris Di Marco, Padraig Harrington, Miguel Angel Jimenez og Tom Lehman. Sjaldan hefur niðurskurðurinn verið jafn hár á Opna bandaríska en Pinehurst-völlurinn var sigurvegari gærdagsins. Bein útsending frá mótinu hefst klukkan 18 á Sýn í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×