Innlent

Hvatt til samstarfs R-listans

Stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík samþykkti á fundi sínum í gær ályktun þar sem hvatt er til viðræðna um endurnýjað samstarf í borgarstjórn undir merkjum Reykjavíkurlistans. Fulltrúaráð Samfylkingarfélaganna í Reykjavík er sameiginlegur vettvangur allra flokksmanna í höfuðborginni og fer með framboðsmál fyrir hönd flokksins. Ráðið fundar á miðvikudagskvöld um borgarstjórnarkosningarnar vorið 2006 og hvetur stjórn SffR, langfjölmennasta flokksfélagsins í borginni, fulltrúa sína á fundinum að veita umboð til framhaldsviðræðna um nýjan R-lista. Ályktun stjórnarinnar hljóðar svo: Stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík telur að Samfylkingarmenn eigi að ganga til viðræðna um endurnýjað samstarf innan Reykjavíkurlistans. Árangur síðustu þriggja kjörtímabila á nær öllum sviðum borgarmála er slíkur að það væri ábyrgðarlaust og óskynsamlegt að ganga frá þessu máli að óreyndu. Stjórn SffR hefur fulla trú á því að saman geti gengið, bæði um menn og málefni, og vísar í þeim efnum meðal annars til umræðna og skoðanaskipta borgarfulltrúa Reykjavíkurlistans um skipulagsmál undanfarnar vikur.Stjórnin beinir því til fulltrúaráðs Samfylkingarfélaganna í Reykjavík að veita umboð til samningaviðræðna við alla þá sem starfa vilja undir merkjum Reykjavíkurlistans að almannaheill í höfuðborginni á næsta kjörtímabili. Stjórnin hvetur fulltrúa félagsins í fulltrúaráðinu að beita sér fyrir því að slíkt umboð verði samþykkt á fundi ráðsins hinn 15. júní næstkomandi.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×