Innlent

Húsnæði sérskóla til borgarinnar

Reykjavíkurborg mun yfirtaka eignarhald á Öskjuhlíðarskóla og Safamýrarskóla, þar sem rekin er þjónusta við fötluð grunnskólabörn. Þetta er eitt atriði samnings um húsnæðismál sérskóla og heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavik sem fulltrúar borgar og ríkis undirrituðu í gær. Samkvæmt honum yfirtekur borgin einnig eignarhald á minni húseignum við Vesturhlíðarskóla, þar sem rekin er þjónusta við fötluð grunnskólabörn, svo og Brúarskóla, sem er sérskóli fyrir börn á grunnskólaaldri með félagslegar og geðrænar raskanir. Það húsnæði sérskóla sem ekki er nauðsynlegt að nýta verður selt og andvirðið notað til að kosta uppbyggingu á nýrri sérdeildarálmu fyrir fatlaða við Fjölbrautaskólann í Ármúla. Húsnæðið sem selt verður er aðalbygging fyrrum heyrnleysingjaskólans en kennsla og þjónusta við heyrnarlaus- og heyrnarskert börn á grunnskólaaldri hefur verið sameinuð á einn stað í nýrri viðbyggingu við Hlíðaskóla. Þá kaupir Reykjavíkurborg eignarhluta ríksins í Vörðuskóla, sem Iðnskólinn í Reykjavík nýtir nú. Verður það húsnæði afhent þegar Iðnskólinn í Reykjavík getur flutt í nýtt húsnæði. Loks munu ríkið og Reykjavíkurborg selja húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík við Barónsstíg á almennum markaði.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×