Sport

Phoenix 4 - Dallas 2

Steve Nash hefur líklega fundist hann hafa mikið að sanna þegar ljóst var að hann myndi mæta félaginu sem kaus að láta hann fara í fyrra. Hann sagði það ekki upphátt, en lét verkin tala og átti enn einn stórleikinn þegar Phoenix sló Dallas út með sigri í framlengingu í nótt, 130-126 í ótrúlegum körfuboltaleik. Nash var búinn að bera lið Phoenix á herðum sér tvo leiki í röð og munaði ekki um að gera það einu sinni enn. Hann skoraði 39 stig, átti 12 stoðsendingar og hirti 9 fráköst í sigri Phoenix í Dallas í nótt og skoraði nokkrar ótrúlegar körfur þegar leikurinn var í járnum undir lok fjórða leikhlutans og í framlengingu. Leikurinn í nótt var leikur sóknarinnar eins og allir undanfarnir leikir liðanna, sem hafa verið frábærir á  að horfa. Á köflum var varnarleikur liðanna, sérstaklega Dallas-liðsins undir lok venjulegs leiktíima, hreint út sagt skelfilegur, en þegar annar eins sóknarleikur er á boðstólnum eru menn fljótir að gleyma því. Einvígi liðanna var það fyrsta í úrslitakeppninni í 19 ár, þar sem bæði lið skora yfir 100 stig í öllum leikjunum og er búið að vera sannkölluð rússíbanareið frá fyrstu mínútu. "Hann skoraði margar ótrúlegar körfur í kvöld og raunar í öllum leikjunum sem þeir unnu okkur. Ég hugsa að honum hafi á einhvern hátt fundist hann hafa harma að hefna hér í Dallas og langað að sýna okkur hverju við misstum af þegar hann fór héðan - það gerði hann svo sannarlega. Ég hef aldrei séð hann leika betur," sagði Dirk Nowitzki hjá Dallas, sem er einn besti vinur Nash, síðan þeir léku saman í nokkur ár. Nowitzki skoraði 28 stig og hirti 13 fráköst, en var pirraður út í dómara leiksins lengst af og eyddi miklum tíma í að öskra á þá, sem og félaga sína þegar honum þótti þeir vera að slá slöku við í varnarleiknum. Verstu útreiðina fékk Jason Terry frá Þjóðverjanum, þegar hann leyfði Nash að jafna leikinn með þriggja stiga skoti á síðustu sekúndunum án þess að fá rönd við reist. "Við höfum náð hæðum sem við höfum ekki náð lengi og þegar maður er í úrslitakeppni fær maður ekki mörg tækifæri. Þetta er hinsvegar bara önnur umferðin, svo við verðum að vera með fætur okkar á jörðinni," sagði hógvær Steve Nash eftir leikinn, en Suns hafa þó góða ástæðu til að fagna árangri sínum, því liðið hefur ekki komist í úrslit vesturdeildar síðan árið 1993, en þá fóru þeir í úrslitaleikinn við Chicago Bulls og töpuðu. Marc Cuban, eigandi Dallas var ekki á því að viðurkenna mistök sín að láta Steve Nash renna sér úr greipum í fyrra. "Ef við hefðum haldið Nash hérna, værum við með allt öðruvísi lið en núna og mér finnst liðið sem við erum með núna skemmtilegra;" sagði eigandinn. Phoenix mætir því San Antonio í úrslitum vesturdeildarinnar og fyrsti leikur liðanna er strax á sunnudagskvöld í Arizona. Það verður gerólíkt einvígi, þar sem mætast reynslumikið og vel skipulagt varnarlið og sóknarstormsveit Phoenix. Atkvæðamestir í liði Dallas:Jason Terry 36 stig, Dirk Nowitzki 28 stig (13 frák, 6 stoðs), Josh Howard 21 stig (14 frák), Jerry Stackhouse 19 stig, Eric Dampier 13 stig (6 frák), Michael Finley 7 stig.Atkvæðamestir í liði Phoenix:Steve Nash 39 stig (12 stoðs, 9 frák), Shawn Marion 38 stig (16 frák), Amare Stoudemire 18 stig (6 frák), Jimmy Jackson 16 stig (7 frák), Quentin Richardson 11 stig (13 frák).
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×