Innlent

Miklar framkvæmdir í Vatnsmýrinni

Framkvæmdir verða alls ráðandi í Vatnsmýrinni næstu árin, ekki síst á lóðinni sem Háskólinn í Reykjavík hefur fengið. Reiknað er með að þar hefjist byggingaframkvæmdir á næsta ári en þeim fylgir jafnframt mikil gatnagerð. Miklar breytingar eru í vændum á Vatnsmýrinni eftir að Háskólinn í Reykjavík þáði lóð sem Reykjavíkurborg bauð skólanum undir nýjar byggingar og starfsemi skólans. Aðspurður hvaða breytingum borgarbúar megi eiga von á segir Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi R-listans, að ekki verði hruflað við neinu í Öskjuhlíðinni. Við Nauthólsvíkina fær útivistar- og afþreygingarsvæðið aukið rýim til að þróast en það verður tengt hinu nýja háskólasvæði með göngustíg sem opnast út frá ákveðnu háskólatorgi. Út frá því er svo vonast til að byggist upp kjarni rannsóknastofnana, hátæknifyrirtækja og skyldrar starfsemi. Þó þyrping bygginganna verði þéttust næst Nauthólsvíkinni munu stúdentagarðar og þjónusta vera á móts við Hótel Loftleiðir og fyrir aftan íþróttasvæði Vals við Hlíðarenda. En hvað með samgöngur? Dagur segir að í nánustu framtíð muni hin nýja Hringbraut tengjast samgöngumiðstöðinni með svokölluðum „Hlíðarfæti“. Svo sjá menn fyrir sér göng í gegnum Öskjuhlíðina þannig að strandlengjan verði ekki eyðilögð með tengingu við Kringlumýrarbraut, sem Dagur segir mjög mikilvæga tengingu. Vegurinn sem liggur niður að Öskjuhlíð verður einnig færður svo háskólasvæðið geti verið samhangandi. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir Háskólann í Reykjavík í pistli á heimasíðu sinni í dag og segir óskiljanlegt að skólinn telji sér til framdráttar að dragast inn í þær deilur, sem séu óhjákvæmilegar vegna allra framkvæmda í og við Nauthólsvíkina. „Ef umhverfissinnar, sem berjist gegn framkvæmdum við Kárahnjúka eða lagningu vegar yfir Stórasand, samþykki að þetta friðland Reykvíkinga í Vatnsmýrinni, milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar, sé eyðilagt á þennan hátt, „... gef ég minna en áður fyrir umhyggju þeirra fyrir náttúrunni,“ segir Björn í pistlinum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×