Innlent

Flugvöllurinn festur í sessi

Með samgönguáætlun er verið að festa Reykjavíkurflugvöll enn frekar í sessi. Þetta staðhæfði Pétur Blöndal alþingismaður þegar hann hjólaði í flokksbróður sinn, Sturlu Böðvarsson samgönguráðherra, vegna stefnumörkunar um nýja flugstöð. Framkvæmdir eru boðaðar við flughlað á austursvæði Reykjavíkurflugvallar árin 2007 og 2008 og miðað við að þar verði byggð ný flugstöð, samkvæmt samgönguáætlun sem nú er til umræðu á Alþingi. Athygli vakti að flokksbróðir samgönguráðherrans, Pétur Blöndal, gagnrýndi þessi áform en ráðherrann varði þau með því að vísa til eldri ákvörðunar þingsins. Hann sagði að tekin hafi verið ákvörðun um endurbyggingu flugvallarins með atkvæðum allra viðstaddra þingmanna. Borgaryfirvöld í Reykjavík hefðu síðan veitt samþykki sitt. Pétur svaraði því til að ákvörðunin hafi verið tekin um að endurbyggja flugvöllinn - ekki reisa nýjan. Og hann sagði að með samgönguáætluninni væri verið að festa Reykjavíkurflugvöll enn frekar í sessi á einu dýrasta byggingarsvæði landsins, staðsetning sem Bretar hafi valið í Síðari heimsstyrjöld, auk þess sem nú ætti að byggja nýja flugstöð. Samgönguráðherra sagði að endurbygging flugvallarins hafi verið gerð með leyfi borgaryfirvalda og því væri ekki verið að ganga gegn hagsmunum borgarinnar.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×