Fastir pennar

Útvarpsráð og -stjóri rúin trausti

Endalokin í fréttastjóramáli Ríkisútvarpsins eru í senn vandræðaleg og dapurleg. Nýráðinn fréttastjóri missteig sig hrapallega í viðtali við fréttamann RÚV og eftir það var trúverðugleiki hans enginn. Það er rangt sem segir í yfirlýsingu Auðuns Georgs, þegar hann ákvað að hætta við að taka fréttastjórastarfið, að fréttamaðurinn hafi með lævíslegum hætti komið honum í vandræði. Um þau vandræði var hann einfær, því miður. Hann kaus að byrja viðtalið á að greina ekki satt og rétt frá og af því spunnust vandræðin. Auðuni er hins vegar nokkur vorkunn í málinu. Án þess að hann geti firrt sig algerlega ábyrgð á hlut sínum í málinu er hann að vissu marki fórnarlamb í pólitískum hráskinnaleik. Niðurstaða málsins ætti að vera stjórnmálamönnum áminning um að þeir tímar séu liðnir að aðrar forsendur en faglegar ráði því hverjir eru ráðnir í stöður hjá hinu opinbera. Menn þurfa að spyrja sig að þessu loknu hver sé staða Ríkisútvarpsins eftir orrahríðina. Augljóst er að algjör trúnaðarbrestur er milli almennra starfsmanna Ríkisútvarpsins og útvarpsstjóra, Markúsar Arnar Antonssonar. Erfitt er að sjá nema tvo kosti í þeirri stöðu; annaðhvort að skipt verði um útvarpsstjóra eða að skipt verði um starfshóp, nánast eins og hann leggur sig. Trúnaðarbrestur er einnig algjör milli starfsmanna og meirihluta útvarpsráðs. Dómgreindarleysi ráðsins og útvarpsstjóra hefur skaðað stofnunina verulega og það er á ábyrgð þessara aðila að bæta þann skaða. Erfitt er að sjá að það verði gert öðruvísi en með afsögn. Það útvarpsráð sem mælti með Auðuni Georg í starf fréttastjóra hlýtur að axla ábyrgð á því dómgreindarleysi og víkja. Það getur í það minnsta ekki tekið þátt í ráðningarferli nýs fréttastjóra. Sama gildir um útvarpsstjóra. Stjórnarflokkarnir hafa gert nokkrar atlögur að sjálfstæði fjölmiðla á undanförnum misserum. Fréttastjóraráðningin og fjölmiðlafrumvarpið í fyrra afhjúpa ömurlegt hugarfar og sýn á fjölmiðla. Hugarfar þess sem býst við því að frétta- og blaðamenn séu strengjabrúður í höndum þeirra sem yfir þá eru settir. Þetta hugarfar stjórnvalda á sér svo sem samsvaranir í veröldinni og af þeim löndum sem næst okkur eru má nefna Rússland og Ítalíu. Þar sem siðmenntaðir stjórnmálamenn ráða ríkjum eru fjölmiðlar hvergi látnir sæta pólitískum afskipum, hvort sem þeir eru í ríkis- eða einkaeigu. Stjórnmál eru opinber mál og varða almenning í ríkum mæli. Stjórnmálamenn þurfa oft að þola aðgangshörku fjölmiðla í umdeildum málum. Það er hluti af þeirra starfi og þeir sem ekki þola eina og eina gusu sem þeir telja óverðskuldaða eiga einfaldlega að leita sér að rólegra starfi. Það er ekki stórmannlegt að kvarta undan slíku. Að reyna að beygja fjölmiðla undir sig með pólitískum ofstopa er hins vegar háttur smámenna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×