Fastir pennar

Ráðstöfun opinbers fjár

"Ekki dettur mér í hug að stíga í ofan í þann grugguga pytt, sem eru málefni Samfylkingarinnar í nútíð, né framtíð, en get þó ekki annað en stungið niður penna til andsvara við rakalausum þvættingi alþingismannsins sem birtist í greininni." Þetta er tilvitnun í grein eftir oddvita Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, sem birtist í Mogganum í síðustu viku. Þetta er sko almennilegt! Ekkert hálfkák, þeir sem ekki eru í sama stjórnmálaflokki og maður sjálfur eru í gruggugum (ég velti fyrir mér hvort kannski hefði verið áhrifameira að segja "fúlum") pytti og þeir sem eru annarrar skoðunar en maður sjálfur fara með rakalausan þvætting. Í gamla daga þótti það góð aðferð í stjórnmálaumfjöllun að birta sem verstar myndir af andstæðingum, flokksblöðin, sem þá réðu lögum og lofum á fjölmiðlamarkaði, stóðu sig þeim mun betur sem stærra myndasafn af greppitrýnum þau höfðu í fórum sínum. Ég held að sú taktík hafi ekki skilað miklum árangri og eins held ég að þessi taktík í samskiptum fólks hvort heldur er á sviði stjórnmálanna eða bara í daglegri umgengni sé ekki heilladrjúg til framfara. Samt er það svo að á stundum mættu ráðamenn vera afdráttarlausari en þeir gjarnan eru. Þá er ekki verið að kalla eftir stórum orðum heldur skoðunum á einstökum málum. Hvað finnst Reykjavíkurþingmönnum um flugvöllinn? Er fjármálaráðherrann sammála þeim sem kalla sig frjálshyggjumenn um að leikskólinn eigi ekki að verða gjaldfrjáls? Þannig háttar nefnilega að ráðamenn, sem ráðstafa skattpeningum okkar, fara stundum eins og kettir í kringum heitan graut eða þegja þunnu hljóði. Þetta á sértaklega við þegar kemur að ráðstöfunum, sem augljóslega eru fámennum hópum - nú eða byggðarlögum til mikils framdráttar, en meiða svo sem engan á annan hátt en þann að peningarnir verða ekki notaðir í annað á meðan. Héðinsfjarðargöngin eru dæmi um þetta. Á Siglufirði halda menn veislu með kórsöng og hvað þá heldur öðru og samgönguráðherrann fær enn einu sinni lófaklapp, svona líkt og hann fékk á Reykjanesi þegar hann færði þeim stækkun Keflavíkurvegarins og á Vestfjörðum þegar hann færði þeim þveraða firði - hvert ætli ferð hans sé annars heitið næst? Fyrir nokkrum mánuðum síðan hlustaði ég á hagfræðing halda fyrirlestur um samgöngur, þróun þeirra og áhrif þeirrar þróunar á byggð í landinu. Á Siglufirði varð blómleg byggð vegna náttúrulegrar hafnar og nálægðar við fiskimiðin. Höfnin var líka miðstöð vöruflutninga, svona "hub" eins og nú til dags er talað um í fluginu. Stór skip settu vörur í land á Siglufirði og síðan voru þær fluttar með minni skipum inn Eyjafjörðinn til Ólafsfjarðar, Dalvíkur og Akureyrar. Svo fóru bæði síld og fiskur frá Siglufirði og vegasamgöngur bötnuðu þannig að ekki tók því fyrir stóru vöruflutningaskipin að sigla norður fyrir til Siglufjarðar og þá dalaði byggðin. - Gárungarnir segja að göngin verði fyrst og fremst til þess að auðveldara verði að keyra burt frá Siglufirði. Stundum hafa þeir rétt fyrir sér. Mér er væntanlega hollast að vera ekki mikið að þvælast á Siglufirði á næstunni, ef einhver þar yfirleitt les þessar hugleiðingar. Meira að segja Pétur Blöndal treysti sér ekki til að segja að framkvæmdin væri arfavitlaus, heldur orðaði það svo að aðrar væru betri. Ákvarðanir af þessu tagi eru hins vegar afdrifaríkar. Ef alltaf er verið að ráðast í óarðbæra fjárfestingu hvort heldur er í samgöngumálum eða stórvirkjunum til að þóknast og kæta lítil byggðarlög þá er peningunum eytt í vitleysu eins og sagt er. Afleiðingin er sú að við eigum ekki peninga til að halda uppi almennilegu velferðarkerfi, gamla fólkið býr við ófullkomnar aðstæður, sjúkrahús allra landsmanna er rekið í ófullkomnu húsnæði og þess vegna allt of dýrt og menn velta því fyrir sér í alvöru hvort ekki sé rétt að unga fólkið borgi fyrir að ganga í háskóla. Eitthvað sem þóttu nú bara almenn mannréttindi hjá minni kynslóð.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×