Innlent

Íslendingar flytja vopn til Íraks

Ríkisstjórnin hefur boðist til að flytja 500 tonn af vopnum og skotfærum til Íraks á vegum NATO. Davíð Oddsson utanríkisráðherra upplýsti þetta á Alþingi í gær við umræður utan dagskrár um stuðning Íslands við þjálfun íraskra öryggissveita. Vopnin eru frá slóvenskum yfirvöldum og eiga nýtast íröskum öryggissveitum. Kostnaður við flutningana verður um 40 milljónir króna. Við þetta bætast 12 milljónir sem Íslendingar hafa lagt í sjóð NATO til að greiða fyrir ferðir og uppihald íraskra öryggissveita sem sækja þjálfun erlendis. Ráðherra lagði áherslu á að stærstur hluti aðstoðar Íslendinga við Íraka renni til mannúðarmála, um 300 milljónir króna. Hins vegar sagði hann ljóst að enga slíka aðstoð væri unnt að veita ef öryggismál landsins væru ekki í lagi. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, var málshefjandi í umræðunni. Fann hann vopnaflutningunum flest til foráttu sem hann setti í samhengi við flutning skriðdreka til Afganistans á sínum tíma. "Mikið hlýtur þjóðinni að líða betur að vita af þessu framlagi sínu," klykkti hann út með.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×