Innlent

Mælt með samgöngumiðstöð

Mælt er með að ráðist verði í byggingu samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni í sameiginlegri niðurstöðu vinnuhóps samgönguráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Niðurstaðan verður kynnt á ríkisstjórnarfundi eftir helgi. Niðurstaða vinnuhópsins þýðir í raun að samkomulag hefur náðst á milli ríkis og Reykjavíkurborgar um að stefna að því að samgöngumiðstöð rísi í Vatnsmýri. Henni er ætlað að þjóna bæði flugi og langferðabifreiðum með góðum tengingum við almenningssamgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins. Vinnuhópurinn gerir tvær tillögur um staðsetningu: annars vegar svokallaðan hótelkost en samkvæmt honum yrði samgöngumistöðin hluti af Loftleiðahótelinu. Hins vegar er svokallaður norðurkostur en samkvæmt honum yrði miðstöðin byggð norðan við Loftleiðahótelið. Hópurinn leggur til að báðir þessir kostir verði boðnir fram í opinni samkeppni þar sem ýmist yrði gert ráð fyrir alútboði eða einkaframkvæmd. Byggingarkostnaður er áætlaður um einn og hálfur milljarður króna en ekki er talið að samgöngumiðstöðin muni geta staðið undir rekstrarkostnaði heldur þurfi ríkið að leggja með henni 50 til 100 milljónir króna árlega. Engin afstaða er tekin til framtíðar Reykjavíkurflugvallar í niðurstöðu hópsins. Búist er við að hún verði kynnt ríkisstjórn og borgarráði eftir helgi.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×