Innlent

Misskipting fer vaxandi

Fjárhagsaðstoð í sex fjölmennustu sveitarfélögum landsins er tvöfalt hærri nú en fyrir fimm árum og nær nú einum og hálfum milljarði á ári. Fjárhagsaðstoð í Reykjavík er allt að tífalt hærri en í öðrum sveitarfélögum og um 85 prósent fjárhagsaðstoðarinnar í heild, eða 1,2 milljarðar. Þetta kom fram í svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttir, þingmanns Samfylkingarinnar, á Alþingi í vikunni. Fjárhagsaðstoð á hvern íbúa í Reykjavík er að meðaltali rúmar tíu þúsund krónur á ári. Það er allt að tíu sinnum hærri upphæð en í fimm stærstu sveitarfélögunum utan Reykjavíkur þar sem fjárhagsaðstoð er að meðaltali á bilinu 1.100 til 3.200 á hvern íbúa. "Þessi hækkun sýnir að fátækt og misskipting fer vaxandi auk þess sem hlutdeild heimilanna í gjaldtöku ýmiss konar eins og í heilbrigðisþjónustunni hefur aukist," segir Jóhanna. "Í svari félagsmálaráðherra kom fram að í þessum sveitarfélögum voru barnlausir karlmenn flestir þeirra sem fengu fjárhagsaðstoð og voru þeir yfirleitt helmingi fleiri en barnlausar konur. Mér finnst að það þurfi að leita skýringa á því. Sennilega er töluvert um forsjárlausa menn sem fara út af heimilum vegna skilnaðar og eru þá húsnæðislausir," segir Jóhanna. "Einnig kom fram að á tímabilinu 2000 til 2002 fjölgaði þeim sem fá fjárhagsaðstoð hjá öllum sveitarfélögum á landinu úr 4.612 manns í 5.930 eða um liðlega 1.300 manns," bendir hún á. "Það lítur út fyrir að ríkið sé að ýta framfærslukostnaði margra einstaklinga yfir á sveitarfélögin," segir Jóhanna. Jóhanna segir að samkvæmt tölum frá Hagstofunni sé meðalupphæð fjárhagsaðstoðar á hvert heimili í Reykjavík á árunum 2001 og 2002 um 280 þúsund krónur, en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu sé meðalupphæðin um 100 þúsund krónum lægri. "Ef litið er til sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins greiddu þau á þessum árum 131 þúsund krónur að meðaltali á hvert heimili sem naut fjárhagsaðstoðar. Reykjavík greiðir því ríflega tvöfalt meira en sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins með hverju heimili sem fær fjárhagsaðstoð," segir Jóhanna.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×