Innlent

Óveður á landinu í dag

Allt flug til og frá landinu fór úr skorðum, innanlandsflug lá niðri og nánast óökufært var utan þéttbýlis á sunnanverðu landinu í dag þegar mikið hvassviðri og snjókoma gekk yfir.  Allsherjarringulreið myndaðist á Keflavíkurflugvelli í morgun þar sem veðurofsinn var slíkur að ekki var hægt að leggja farþegaþotum flugfélaganna við landgangana. Farþegar vélar Icelandair frá Boston urðu að bíða í rúmar tvær klukkustundir í vélinni eftir að hún lenti. Vindhraðinn var um tuttugu og fimm metrar á sekúndu. Millilandaflugið var allt úr skorðum fyrri part dags og hófst ekki aftur fyrr en síðdegis. Allar morgunvélarnar eru farnar af stað og áætlunarferðum síðdegis seinkaði velflestum um nokkrar klukkustundir. Ástandið í innalandsfluginu var síst betra. Það lá niðri fram eftir öllum degi og undir kvöld var ferðum til Hafnar, Ísafjarðar, Vestmannaeyja og Bíldudals aflýst. Kanna á flug til Akureyrar og Egilstaða upp úr klukkan átta. Dýrvitlaust veður var víða á sunnanverðu landinu fram eftir degi. Hellisheiðinni var til að mynda lokað, enda bæði fljúgandi hálka og blint þar. Undir hádegi fór aðeins að lægja en þó var víða ekkert ferðaveður. Á Hellisheiðinni var ástandið á tólfta tímanum raunar verra en fyrr um morguninn. Varla mátti greina vegstikurnar sem voru einu vísbendingarnar um hvar veginn var að finna. Nokkrir bílar fóru út af veginum, bæði á heiðinni og í Þrengslunum. Björgunarsveit úr Hveragerði var send til að aðstoða fólk sem sat í bílum sínum og komst hvergi. Viðmælendur fréttastofunnar á Litlu kaffistofunni sögðu blindbyl hafa verið þar í morgun og þurfti fólk að bíða þar í allt að tvær klukkustundir þangað til opnað var fyrir umferð yfir heiðina. Þá var illviðri á Holtavörðuheiði og þungfært um Steingrímsfjarðarheiði en engar fregnir hafa borist af alvarlegum óhöppum.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×