Erlent

Heitasta árið framundan

Vísindamenn hjá bandarísku geimvísindastofnuninni, NASA, telja líklegt að árið 2005 verði það heitasta á jörðinni hingað til og draga fram margvísleg rök fyrir máli sínu. Segja þeir kjöraðstæður í náttúrunni til þess arna, annars vegar er veikur El Nino í Kyrrahafinu og í þokkabót við síaukin gróðurhúsaáhrif er það ávísun á heitt, ef ekki heitasta árið hingað til. Mengun af mannanna völdum veldur síauknum áhrifum á náttúru- og veðurfar alls staðar á jarðarkringlunni og telja vísindamennirnir að sú hækkun sem orðið hefur á meðalhitastigi í heiminum síðustu áratugi megi að stórum hluta rekja til mengunar á borð við útblástur bifreiða og mengunar frá iðnaði hvers konar. Til sanns vegar má færa að merkileg veðurfræðileg fyrirbæri eiga sér mun oftar stað nú en áður og þarf vart annað en að skoða fjölmiðla til að fá heim sanninn um það. Svo nokkur dæmi séu tekin furða heimamenn á Kanaríeyjum sig yfir miklum rigningum og kuldaköstum sem gengið hafa þar yfir um hríð. Þurrkar hafa gert lífið erfitt fyrir íbúa Kenía en hin síðari ár hefur orðið vart við tengsl milli El Nino hitastraumsins í Kyrrahafinu og slæmum þurrkum í stórum hluta Afríku. Í þversögn við Afríku hefur sjaldan mælst jafn mikil úrkoma í Pakistan og reyndist hún svo mikil að tvær nýjar stíflur í landinu gáfu sig innan við tveimur árum eftir að þær voru byggðar. Mælingar á meðalhitastigi á landi og á sjó á síðasta ári leiða í ljós að meðalhiti var 0,48 gráðum hærri 2004 en hann var á tímabilinu 1950 til 1980 og þykir slíkt gríðarleg hækkun á ekki lengri tíma. Þeir íslensku veðurfræðingar sem rætt var við vegna málsins vildu lítið segja en bentu á að vísindamenn NASA og reyndar veðurstofnanir víða nota afar háþróuð veðurlíkön í spár sem þessar og því væri ekki hægt að virða slíkt að vettugi.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×