Innlent

Efast um trúverðugleikann

"Við erum að tala um trúverðugleika ríkisstjórnarinnar og hvort hæstvirtur forsætisráðherra Íslands fari með rétt mál," sagði Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, í umræðu um Íraksmálið á Alþingi í gær. Tilefnið var viðtal við Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra sem sýnt var á Stöð 2 kvöldið áður, er rætt var um aðdraganda ákvörðunar forsætisráðherra og utanríkisráðherra um stuðning Íslands við innrásina í Írak í mars 2003. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, benti á að í viðtalinu hefði Halldór staðfest að það hefði verið þrýstingur Bandaríkjamanna sem leiddi til þessarar ákvörðunar. "Það kom líka fram að varnarhagsmunir hefðu blandast inn í. Forsætisráðherra afsakaði þetta með því að segja að ef beiðni frá 60 ára vinaþjóð hefði verið hafnað hefði orðið veruleg stefnubreyting í öryggis- og varnarmálum okkar. Það er rangt. Þarna var um ólögmætt innrásarstríð að ræða eins og Kofi Annan, ritari Sameinuðu þjóðanna, hefur manna best rökstutt. Það sem felur í sér stefnubreytingu er það að Ísland skuli styðja einhliða innrásarstríð, sem er ólögmætt, og það er líka stefnubreyting að ákvörðunin skuli hafa verið tekin án lögskipaðs samráðs við utanríkismálanefnd," sagði Össur. Halldór sagði að Össur færi með rangt mál. "Ég sagði í þessu viðtali að það væru engin bein tengsl. Ef það kemur honum á óvart að það sé náið samstarf í varnarmálum milli Bandaríkjanna og Íslands þá er ég furðu lostinn yfir því," sagði Halldór. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, benti á að ekki væri stafkrókur bókaður um málið í Stjórnarráði Íslands. "Það eru engin skrifleg gögn til. Það var aldrei tekin nein formleg ákvörðun á fundi," sagði hann. Össur spurði að því hvers vegna ákvörðunin hefði ekki verið rædd í ríkisstjórn. "Getur skýringin verið sú að innan ríkisstjórnarinnar hafi verið menn sem hafi verið andstæðir þessu, eins og hæstvirtur landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson? Hver er skýringin á því að það var ekki lagt í að ræða þetta í þingflokknum? Getur hún verið sú að það hafi verið fimm þingmenn Framsóknarflokksins sem ekki hafi verið sammála þessu? Er skýringin sú að hæstvirt ríkisstjórn hafði ekki þingmeirihluta fyrir þessu?" sagði Össur.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×