Innlent

Skattsvik verður að uppræta

"Það er eðlilegt að einstaklingar og fyrirtæki nýti sér þær leiðir sem löglegar eru til að lágmarka skattgreiðslur sínar, en skattsvik má ekki umbera. Skattsvik misbjóða réttlætiskennd fólks og þau verður að uppræta." Þetta sagði Geir H. Haarde fjármálaráðherra á Alþingi í gær er hann ræddi um skýrslu starfshóps um umfang skattsvika á Íslandi. Í skýrslunni, sem birt var í desember kom fram að skattsvik á Íslandi nema allt að því 35 milljörðum króna. Jóhanna Sigurðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, benti á að upphæðin væri stærri en sú sem fer í að reka allt skólakerfið á Íslandi, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla. Hún gagnrýndi fjármálaráðherra fyrir að koma ekki með skýr svör við því hvaða aðgerðum grípa ætti til svo sporna megi við skattsvikum. Geir sagði að í skýrslunni væru margar góðar tillögur sem nýtast munu við þróun og úrbætur á skattkerfinu. "Munu þær án efa nýtast við þá fjölbreytilegu vinnu sem fram fer í fármálaráðuneytinu á sviði skattamála, við tillögugerð í lagasetningu, þróun skattframkvæmdar og alþjóðastarfs á sviði skattamála," sagði hann.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×