Sport

Garcia sendir Viggó tóninn

Jaliesky Garcia, leikmaður Göppingen í Þýskalandi, gefur ekki kost á sér í íslenska landsliðið í handknattleik á meðan Viggó Sigurðsson er landsliðsþjálfari. Þetta kom fram í viðtali við Garcia í Olíssporti á Sýn í gærkvöldi. Garcia sagðist ósáttur við ummæli landsliðsþjálfarans í sinn garð í fjölmiðlum síðustu daga. Hann segir það ekki rétt að hann hafi farið í tíu daga frí til Púertó Ríkós heldur hafi hann aðeins dvalið þar í fjóra daga. Hann segir það heldur ekki rétt að Göppingen í Þýskalandi hafi sett á sig pressu að spila ekki með íslenska landsliðinu í Túnis. Garcia sagði enn fremur að Viggó Sigurðsson landsliðsþjálfari væri að reyna að sverta nafn sitt og segir landsliðsþjálfarann ljúga. Leikmaðurinn gaf hins vegar engar skýringar á því hvers vegna hann hefði ekki komið í tæka tíð til móts við íslenska landsliðið, en honum var tilkynnt 19. desember eins og öðrum leikmönnum liðsins að hann væri í liðinu sem tæki þátt í heimsmeistaramótinu í Túnis. Jaliesky Garcia var því fullkunnugt um æfingaáætlun íslenska liðsins en einhverra hluta vegna lét hann ekki vita af sér og hefur skellt skuldinni á farsímann sinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×