Sport

Pressan eykst á Viggó

"Hugurinn er óneitanlega við mótið í Túnis og margt sem er í skoðun út af því," segir Viggó Sigurðsson, landsliðsþjálfari Íslands í handbolta. Nú líður óðum að heimsmeistaramótinu í Túnis þar sem Ísland verður meðal þátttakenda og segir Viggó að hann finni að pressan sé að aukast. "Engin spurning um það að hún eykst dag frá degi þessa dagana. Það er eðlilegt enda stutt í mót og ég fagna því enda öll pressa af hinu góða. Ég stefni ótrauður að því að gera liðið klárt og mun tilkynna lokahópinn á þriðjudaginn kemur. Þangað til fæst ekkert upp úr mér." Aðspurður um riðlakeppnina í handboltanum sem lauk nú um helgina sagði Viggó það afar jákvætt því riðlakeppnin sé að hans mati eins óspennandi fyrirkomulag og hægt sé að finna og hann hlakki til að fylgjast með leikjum í úrslitakeppninni eftir áramót. "Þarna eru mörg félög sem eiga að geta barist um titilinn. Að mínu viti verða það þessi venjulegu, Haukarnir, ÍR og Valsmenn en ég vænti ennfremur mikils af liði ÍBV. Mér finnst liðið allt spennandi og leikmönnum þess hefur vaxið ásmegin í vetur. Það kæmi mér ekki á óvart ef þeir stæðu uppi með pálmann í höndum eftir tímabilið."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×