Erlent

Meiri foringi en margur hyggur

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir sigur George W. Bush í forsetakosningunum í Bandaríkjunum virðast mjög afgerandi. "Ég tel að þetta sé mikið afrek hjá honum og sýni að hann er meiri foringi en margur hyggur, sérstaklega í Evrópu. Hann hefur verið umdeildur, en mér hafa líkað vel þau samtöl sem ég hef átt við hann," segir Halldór. Halldór telur að endurkjör Bush í embætti Bandaríkjaforseta komi Íslandi að mörgu leyti vel, enda hafi hann til dæmis verið mjög afgerandi varðandi frjáls viðskipti í heiminum. "Svo hefur hann svarað því til að hann vilji finna lausn á varnarmálunum sem við getum sætt okkur við." Halldór segist þó aldrei hafa talið að miklu myndi breyta varðandi utanríkismál hvor ynni, Bush eða Kerry. "Þó þeir hafi verið ósammála í sambandi við margt í Írak er fram undan þar uppbygging og Bandaríkjamenn hafa tekist þar á hendur skuldbindingar sem þeir hvorki geta né munu hverfa frá." Þá gerir Halldór ráð fyrir að ný ríkisstjórn undir forystu Bush í Bandaríkjunum leggi mikla áherslu á að lausn verði fundin á vanda Mið-Austurlanda. "Það er lykillinn að mörgu öðru og takist það skiptir það sköpum í samskiptum Bandaríkjanna, bæði við Mið-Austurlönd og Evrópu."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×