Fastir pennar

Siðferði og lagatækni

Umræðan um víðtækt samráð olíufélaganna um árabil tekur á sig ýmsar myndir og kannski speglar hún að mörgu leyti þau öfl sem iðulega togast á í samfélagsumræðunni. Upp eru komin átök milli siðferðis og lagatækni þar sem ýmislegt bendir til að lagatæknin ætli að hafa betur. Beinn hagnaður olíufélaganna af samráðinu, sem allt eins má bara kalla svindl, telst 6,5 milljarðar króna að lágmarki og þjóðhagslegur skaði telst ekki undir 40 milljörðum króna. Það er erfitt fyrir leikmann að meta hvað þetta fjárhagslega tjón þýðir í raun og veru en eitt er þó víst að það er mikið. Forstjórar olíufélaganna eru uppvísir að langvarandi og skipulögðu samráði af margvíslegum toga og um misveigamikil atriði; samráð um verð, samráð um skiptingu markaðar, samráð um að útiloka erlendan keppinaut og samráð allt niður í jólagjafir til starfsmanna svo dæmi séu tekin. Þetta liggur ljóst fyrir sem og að um lögbrot er að ræða. Ýmsir gætu dregið þá ályktun að þessir menn væru þá tilbúnir til að taka afleiðingum gerða sinna en annað kemur á daginn. Viðurlögin, sektir olíufélaganna upp á samtals 2,6 milljarða króna, telur forstjóri Samkeppnisstofnunar hörð og að minnsta kosti lögmaður eins félagsins ekki í samræmi við það sem búast mátti við. Við hverju mátti þá búast? Yfirleitt er það þannig að þegar yfirvöld á annað borð hafa hendur í hári þeirra sem hafa tekið eitthvað ófrjálsri hendi, þá er þeim hinum sama gert að skila þýfinu og greiða sekt að auki. Hér teljast sektir sem nema innan við helmingi af beinhörðum hagnaði olíufélaganna af svindlinu og ekki nema broti af þeim fjárhagslega skaða sem samfélagið hefur orið fyrir, hörð viðurlög og jafnvel úr samhengi við tilefnið og þó talar enginn um að skila þýfinu. Gripið er til lagatæknilegra raka eins og að brotin séu fyrnd, málsmeðferð sé ólögmæt og að ekki hafi verið gætt að andmælarétti. Og maður getur ekki annað en velt því fyrir sér hvað hafi orðið siðferðisvitund þessara manna og sómatilfinningu? Telja þeir sig bara hólpna af því að brotin eru fyrnd. Kunna þeir ekkert að skammast sín? Það hefur lengi verið mál manna að olíufélögin hefðu samráð um verðskrá sína og ýmislegt fleira. Með samkeppnislögunum var tekinn af allur vafi um að þetta samráð væri ólögmætt en samt hélt það áfram. Rannsókn Samkeppnisstofnunar um samráð um grænmetisverð var ákveðinn vendipunktur og áhlaup starfsmanna stofnunarinnar á skrifstofur olíufélaganna fyrir tæpum þremur árum var í eðlilegt framhald af því. Almenningur taldi að nú ætti að taka til og stöðva þetta svínarí. Vonandi mun það takast en ekki verður þó séð að samkeppni milli olíufélaganna sé sérlega virk í dag, að minnsta kosti sér þess ekki stað í verði á eldsneyti til neytenda þessa lands.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×