Erlent

Aldrei meira lagt í baráttuna

Aldrei í sögu bandarískra stjórnmála hefur verið lagt jafn mikið kapp á að fá almenning á kjörstað og nú er gert. Repúblikanar eru sagðir hafa milljón sjálfboðaliða í því að hvetja fólk til að mæta á kjörstað til að kjósa George W. Bush Bandaríkjaforseta meðan demókratar hafa í það minnsta 250 þúsund sjálfboðaliða og fjölda starfsmanna til að vinna sama starf fyrir öldungadeildarþingmanninn John Kerry. Þessi áhersla, mikil óvissa um úrslitin og mjög skiptar skoðanir almennings leiða til þess að búist er við því að kjörsókn verði mun meiri en undanfarin ár. Eleanor Clift, stjórnmálaskýrandi Fox fréttastöðvarinnar, spáir því að allt að tíu milljón fleiri einstaklingar kjósi nú en fyrir fjórum árum, 110 til 115 milljónir í stað þeirra 105 milljóna sem greiddu atkvæði þá. Andrew Kohut, sem sér um gerð skoðanakannana hjá Pew stofnuninni bjóst við meiri kjörsókn en í síðustu þremur forsetakosningum og jafnvel hærri en 1992. Þrátt fyrir það má búast við að hátt í helmingur þeirra sem hafa rétt á að kjósa sitji heima. Samkvæmt könnun Marist stofnunarinnar er mun meiri áhugi fyrir þessum kosningum en síðustu forsetakosningum. Þá sögðust 58 prósent skráðra kjósenda mjög áhugasamir um kosningarnar en í ár er það hlutfall komið upp í 74 prósent. Frambjóðendurnir hafa líka mikla trú á kjörsókn. John Kerry spáði því í viðtali við ABC sjónvarpsstöðina að metkjörsókn yrði í kosningunum í ár. Að því er fram kemur í Washington Post hringja kosningastjórnir frambjóðendanna, hvor fyrir sig, daglega í 400 þúsund manns í Ohio-ríki einu saman. Þar er barist um 20 ríki og samkvæmt könnun Columbus Dispatch munaði aðeins átta svörum á þeim Bush og Kerry í skoðanakönnun þar sem 2.880 manns voru spurðir. Átta svara forskot Kerry er það minnsta í sögu kannana Columbus Dispatch. Bush er sagður verja andvirði tæpum níu milljörðum í að fá fólk á kjörstað, þrefalt meira en fyrir fjórum árum og Kerry rúmum fjórum milljörðum, tvöfalt meira en Al Gore gerði fyrir fjórum árum að sögn Washington Post.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×