Innlent

Segist ekki mega spyrja um Skjá 1

Geir H. Haarde, fjármálaráðherra neitaði í gær á Alþingi að svara spurningu Össurar Skarphéðinssonar, formanns Samfylkingarinnar um kostnað Símans á helmingshlut í Skjá 1. Sagðist fjármálaráðherra sem fer með 99% hlut ríkisins i Símanum ekki hafa rétt til þess umfram aðra eigendur að afla slíkra upplýsinga. Össur Skarphéðinsson veittist harkalega að fjármálaráðherra og sagði ríkisstjórnina stunda hjálparstarf til að bjarga gæðingum úr skuldasúpu. Sagði hann engin viðskiptaleg rök fyrir kaupunum á Skjá einum. Vakti hann athygli á að þeir þrír sem helst hefðu komið að ákvörðun Símans væru allir málsmetandi Sjálfstæðismenn, Brynjólfur Bjarnason, forstjóri, Orri Hauksson, þróunarstjóri og fyrrverandi aðstoðarmaður Davíðs Oddssonar og Friðrik Friðriksson, breiðbandsstjóri og fyrrverandi kosningastjóri hans. Helsti seljandi hefði verið Gunnar J. Birgisson fyrrverandi borgarfulltrúi D-listans í Reykjavík. Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna sagði að svo virtist sem Síminn væri hvorki ríkisfyrirtæki né hlutafélag. Fjármálaráðherra neitaði nú upplýsingum því fyrirtækið væri hlutafélag en áður hefði honum sjálfum sem hluthafa verið neitað um hluthafafund þrátt fyrir ákvæði hlutafélagalaga. "Verður fjölmiðlahlutinn svo skilinn frá Símanum rétt fyrir einkavæðingu eins og VÍS frá Landsbankanum, rétt fyrir helmingaskiptin?" Sigurjón Þórðarson, Frjálslynda flokknum sakaði Geir H. Haarde um að misnota almannafé í "pólitískri herferð gegn Norðurljósum." Dagný Jónsdóttir, Framsóknarflokki benti á að Síminn hefði rekið fjölvarp á breiðbandinu um langt skeið og ekki hefði þá verið amast við því að hann "nýtti fjárfestinguna". Benti hún á að fólk víða um land gæti ekki stundað fjarnám eða atvinnurekstur vegna skorts á ADSL tengingum. Nú væri útlit fyrir að þarna yrði gert átak. Sagði hún kaldhæðnislegt ef opnað yrði á þetta "þökk sé enska boltanum".


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×