Erlent

Bush og Kerry hnífjafnir

Þúsundir kjósenda biðu fyrir utan kjörstaði á Flórída í morgun þegar utankjörstaðakosning hófst þar. Kosningin gekk ekki vandræðalaust, tölvur biluðu, kjörseðlar voru rangir og kjörstaðir of fáir. Samkvæmt könnun New York Times og CBS sem birt var í morgun eru Bush og Kerry hnífjafnir með fjörutíu og sex prósentu fylgi hvor. Fáir hafa gleymt vandræðunum sem urðu á Flórída fyrir fjórum árum þegar margra vikna þras og endurtalning kom í veg fyrir að úrslit forsetakosninganna lægju fyrir. Yfirvöld í ríkinu hafa síðan gert hvað þau gátu til að koma í veg fyrir að sama sagan endurtæki sig, en miðað við tíðindi morgunsins hefur þeim ekki tekist ætlunarverk sitt. Til að mynda hrundi fullkomið tölvukerfi sem gerði kjósendum kleift að kjósa með því að strjúka snertiskjá. Kjörseðill fyrir utankjörstaðakosningu í Palm Beach reyndist rangur. Og fulltrúar minnihlutahópa kvarta sáran yfir því að kjörstaðir á svæðum þar sem minnihlutahópar eru í meirihluta séu allt of fáir. Víða mynduðust svo langar biðraðir við kjörstaði að kjósendur gáfust upp eftir klukkustunda landa bið. Aðrir þraukuðu, staðráðnir í að greiða atkvæði og hafa áhrif á úrslit kosninganna með þeim hætti. Flórída er eitt þeirra ríkja sem ráðið gæti úrslitum í kosningunum í ár. Samkvæmt nýjustu könnun Reuters og Zogby eru fylgi beggja frambjóðenda jafnt á landsvísu. Báðir eru með fjörutíu og fimm prósenta fylgi. Ennþá eru sjö prósent kjósenda óákveðin. John Zogby, yfirmaður Zogby-könnunarfyrirtækisins, segir Kerry þó sækja á, mjög hægt og rólega. Að sama skapi hefur hlutfall líklegra kjósenda, sem telja að Bush eigi skilið að vera endurkjörinn, lækkað. Þeim sem vilja skipta um forseta hefur að sama skapi fjölgað. Jafnt fylgi frambjóðendanna bendir því til þess að Kerry gangi illa að sannfæra óákveðna og óánægða. Samkvæmt könnun New York Times og CBS sem birt var í morgun eru Bush og Kerry hnífjafnir með fjörutíu og sex prósentu fylgi hvor. Kjósendur virðist samkvæmt könnuninni líta Bush gagnrýnum augum og ánægja með frammistöðu hans er mjög lág, fjörutíu og fjögur prósent. En kjósendur treysta að sama skapi ekki Kerry og telja hann haga seglum eftir vindi.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×