Erlent

Óákveðnir og nýir ráða úrslitum

Þeir kjósendur sem ennþá eru óákveðnir og þeir sem aldrei hafa kosið áður koma til með að ráða úrslitum forsetakosninganna vestan hafs. Þetta er mat Davids Rohdes sem er einhver þekktasti sérfræðingur í kosningahegðun í Bandaríkjunum. David Rohde kennir stjórnmálafræði við Michigan-háskóla og hefur um árabil fylgst með og rannsakað kosningahegðun bandarískra kjósenda. Hann segir að það séu nokkrir óvissuþættir í kapphlaupinu um Hvíta húsið þó að fáir séu óákveðnir. Hann telur sig vita á hverju líklegt sé að úrslitin velti og þess vegna viti hann ekki hver niðurstaðan verði. Rohde segist þess fullviss að niðurstaðan velti kosningaþátttöku. „Oft er það ekki þannig en ég tel að sú sé raunin núna,“ segir Rohde. Þetta getur komið báðum frambjóðendum til góða. Árið 2000 kusu til að mynda óvenjufáir kristnir íhaldsmenn sem eru sterkur hópur meðal repúblikana. Daginn fyrir kosningar var Bush með allt að fimm prósentustiga forskot í könnunum en var að lokum með um hálfri milljón atkvæða færra, að hluta til vegna þessa. Rohde segir hina hliðina á þátttökujöfnunni snúast um skráningu nýrra kjósenda sem hafi verið að gerast í stórum stíl undanfarið. Það sé hins vegar staðbundið, þ.e. dreifist ekki jafnt yfir landið og ekki jafnt innan ríkjanna. „Mest hefur verið um þetta í stórborgum þar sem eru stórir minnihlutahópar,“ segir Rohde. „Ef þessir nýju kjósendur mæta á kjörstað kemur það sér vel fyrir demókrata - en við vitum það ekki. Þótt þeir séu nýskráðir kjósendur er ekki víst að þeir mæti á kjörstað.“ Það sem skipti því mestu máli í sambandi við kosningaþátttökuna er hvað íhaldssamir, kristnir kjósendur geri og hvað hinir nýskráðu geri. „Þeir geta jafnað hver annan út eða þá að annar hópurinn verður miklu stærri en hinn. Ég held að þetta muni ráða úrslitum,“ segir David Rohde.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×