Erlent

Vandamál strax á fyrsta degi

Vandamál komu upp á nokkrum kjörstöðum í Flórída í gær þegar utankjörfundaratkvæðagreiðsla fyrir forsetakosningarnar hófst. Því virðist sem áhyggjur sem ýmsir hafa lýst um að ekki væri búið að komast fyrir öll vandamál sem gerðu vart við sig fyrir fjórum árum eigi við einhver rök að styðjast. Tölvukerfið sem notast var við í Orange-sýslu hrundi og því var ekki hægt að kjósa í Orlando og nágrenni um stund. Á nokkrum kjörstöðum í Broward-sýslu lentu menn í vandræðum með fartölvur sem tengdar höfðu verið við miðstöð kjörstjórnar. Þá sagði demókratinn Shelley Vana, sem á sæti á ríkisþingi Flórída, að hún hefði fengið gallaðan kjörseðil þegar hún bað um að fá að kjósa á gamla mátann í stað þess að greiða atkvæði í tölvu. Á kjörseðilinn vantaði nokkrar tillögur sem kjósendur eiga að greiða atkvæði um. Efnt var til mótmæla fyrir framan skrifstofu kjörstjórnar í Duval-sýslu, fjölmennustu sýslu Flórída, vegna þess að aðeins er hægt að greiða atkvæði utan kjörfundar á einum stað.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×