Innlent

Hlýr, votur og dimmur

Nýliðinn september var nokkuð hlýr, en úrkomusamt var og fremur sólarlítið. Úrkoma í Reykjavík mældist 40 prósentum meiri en í meðal septembermánuði. Meðalhitinn í höfuðborginni var hins vegar nokkuð fyrir ofan meðallag, eða níu gráður, og er það þrítugasti mánuðurinn í röð þar sem hiti er fyrir ofan meðallag. Á Akureyri var meðalhitinn 8,8 gráður, sem er 2,6 gráðum meira en í meðalári og þar var úrkoma tæplega 60 prósentum meiri en í meðal septembermánuði. Eftir sólríkt sumar dró sólin sig að nokkru leyti í hlé í september og voru sólskinsstundir í Reykjavík alls 103, eða 22 færri en í meðalári, og á Akureyri voru þær alls 72, eða fjórtan undir meðallagi. Sumarið (júní til september) var hlýtt að sögn Veðurstofunnar. Í Reykjavík var það hið fimmta hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga, en árin 1939, 1941, 1958 og 2003 voru sumrin hlýrri en í ár. Sumarið var einnig sólríkt með eindæmum og mældust sólarstundir í Reykjavík 753, sem gerir sumarið að níunda mesta sólarsumri síðan mælingar hófust. Á Akureyri voru sólskinsstundirnar 682 og hafa þær aðeins fimm sinnum orðið fleiri þar nyrðra að sumarlagi.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×